135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

embætti umboðsmanns aldraðra.

396. mál
[14:30]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef verið á báðum áttum í gegnum tíðina varðandi hugmyndir um stofnun umboðsmanns aldraðra og í mínum huga er stofnun embættis tiltekinna hópa einungis réttlætanleg þegar um er að ræða hópa sem ekki hafa möguleika á að verja hagsmuni sína sjálfir.

Eldri borgarar mynda sterkan hagsmunahóp. Þeir eru undir merkjum frjálsra félagasamtaka og þau hafa reynst fullfær um að koma sjónarmiðum sínum og hagsmunum á framfæri og berjast fyrir sameiginlegum hagsmunum síns hóps. Þeir hafa jafnvel fengið stuðning frá stjórnvöldum í einhverjum mæli til að halda uppi starfsemi sinni. Ég tel mikilvægt að styðja við bak slíkra félagasamtaka að veita einstaklingsbundna aðstoð, upplýsingagjöf og ráðgjöf. Jafnvel að finna málum farveg til umboðsmanns Alþingis þegar málin varða samskipti við stjórnvöld eða reka mál gagnvart dómstólum er varða rétt manna sem geta verið fordæmisgefandi fyrir fleiri. Mín reynsla er sú að ég tel það vera mun farsælli leið að styðja við bak frjálsra félagasamtaka (Forseti hringir.) til þess að vinna að hagsmunamálum eldri borgara heldur en að stofna embætti umboðsmanns aldraðra.