135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

tæknifrjóvganir.

433. mál
[15:50]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Hún flutti bæði góða fyrirspurn og sömuleiðis góð rök fyrir sínu máli sem ég get ekki heyrt annað en að sé góð samstaða um í þinginu og það er vel. Ég fagna því þegar gefin eru vilyrði um að það sé mikill vilji fyrir því að keyra hratt í gegn mál sem sá sem hér stendur leggur fyrir þingið. Við skulum vona að það eigi við um öll málin þó að það sé kannski ekki alveg sjálfgefið en (Gripið fram í.) guð láti gott á vita. Það er gott að samstaða er um þessi mál. Nefndin hefur unnið vel og ötullega að þessu máli og ég vona að niðurstaðan verði góð. Það eru fleiri þættir sem koma þarna inn eins og hv. þm. Ásta Möller nefndi og ég veit að í hv. heilbrigðisnefnd eru einstaklingar sem er bæði áhugafólk um þessi málefni og vel að sér og mun örugglega vinna þetta mál vel þegar það kemur til kasta nefndarinnar.

Ég vil að lokum segja svo ég haldi áfram að hrósa hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að og mér þótti líka afskaplega málefnalegt hvernig hún tók á þessu máli hvað varðaði þá ágætu stofnun Art Medica, því að eins og við vitum er það einkarekin stofnun sem veitir góða þjónustu. Ég held að það sé gott að ræða það á þeim nótum sem skiptir máli og það er sú góða þjónusta sem þar er veitt fólki í landinu, í þessu tilfelli konum, og ég tel það líka til fyrirmyndar hvernig hv. þingmaður höndlaði það mál, virðulegi forseti.