135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

ummæli forsætisráðherra á aðalfundi Seðlabankans.

[15:14]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef þegar tjáð mig um þessa hugmynd á jákvæðan hátt og sagt að þetta sé gagnlegt og sjálfsagt að gera um leið og ég segi að það leysir að sjálfsögðu ekki á nokkurn hátt úr vanda okkar á líðandi stundu í efnahagsmálum, og þar er ég sammála hæstv. forsætisráðherra að það þurfa allir að taka á árinni og líka hæstv. ríkisstjórn. Ég held hins vegar að það sé gagnslaust að skoða Seðlabankann og tæki hans einangrað og þröngt. Það verður að skoða hagstjórnina í heild og horfast í augu við þá staðreynd að Seðlabankinn hefur meira og minna einn og óstuddur verið að reyna að kæla niður hagkerfið og halda aftur af verðbólgu og þenslu og bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnir hafa ýmist ekkert gert eða tekið ákvarðanir sem hafa unnið gegn viðleitni Seðlabankans á mismunandi tímum. Þetta eru staðreyndir. Það fæst engin raunhæf úttekt á og raunhæf niðurstaða gagnvart því hvort núverandi stefna og tæki Seðlabankans virka nema að skoða heildarsamhengið. Þess vegna endurtek ég þá spurningu til hæstv. forsætisráðherra: Er hann tilbúinn til að víkka út viðfangsefni þessarar könnunar og kæmi til greina að eiga um það samráð t.d. við viðkomandi þingnefndir?