135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

477. mál
[15:07]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Umræðan um frumvarpið og skýringar í máli hæstv. umhverfisráðherra snúa fyrst og fremst að tveimur dýrategundum, rjúpu annars vegar og hreindýrum hins vegar. Hafa rökin sem hér eru á borð borin einkum snúið að veiðum á þessum tveimur dýrategundum. Nú er það hins vegar svo að lögin eru ekki eingöngu um þessar tvær tegundir heldur einnig um sjávarfugla og sjávarspendýr. Sá sem hér stendur hefur ekki nema einu sinni gengið til rjúpna, skaut tvisvar á sömu rjúpuna, hitti hana ekki og hefur síðan ekki farið og mun ekki fara aftur — þetta er fugl sem kann ekki að verja sig. Ég hef hins vegar yndi af því að fara til sjós og stunda veiðar á sjófugli.

Þau rök sem hér eru á borð borin eiga vafalaust ágætlega við um þær dýrategundir sem hér voru nefndar, rjúpu og hreindýr, sem því miður eru ekki á norðvestanverðu landinu — það væri mjög æskilegt að hreindýr mundu leggja leið sína þangað í framtíðinni. En ég hef athugasemdir, hæstv. forseti, sem ég hef borið fram varðandi þessa framkvæmd. Mér finnst þær reglur, og kennsla í því að drepa dýr, kannski allra góðra gjalda verðar svo langt sem þær ná en þær ná eingöngu til þessara tveggja dýrategunda. Ég geri athugasemdir við frumvarpið og mun fylgjast með því hvernig því reiðir af í sölum þingsins.