135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

virkjunarkostir á Vestfjörðum.

425. mál
[14:20]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu um raforkumál á Vestfjörðum og undirstrikun á mikilvægi þess að tryggja afhendingaröryggi raforku í þessum landshluta sem er með því slakasta og raunar slakast af landshlutunum.

Til viðbótar við það sem hér hefur verið nefnt, en það hefur verið nefnt að horfa þarf til orku eins og heits vatns, þá langar mig að bæta inn í spurninguna ef ég má og biðja hæstv. iðnaðarráðherra að svara því: Hvað líður því að skoða sjávarfallavirkjanir? Vegna þess að það er auðvitað spennandi viðfangsefni við Breiðafjörðinn og gæti breytt miklu ef við næðum tökum á þeirri tækni og gætum nýtt okkur hana í sambandi við rafmagnsmálin í þessum landsfjórðungi.

Þess skal getið að þetta er eitt af brýnustu verkefnunum í sambandi við atvinnulíf á þessu svæði. Auk þess sem við höfum nefnt áður sem eru samgöngurnar þá er mjög brýnt að við náum því að vera með næga raforku þarna og nægt afhendingaröryggi þannig að fyrirtæki sem hafa áhuga á að koma inn á þetta svæði geti búið við sambærilegan kost og er á öðrum svæðum landsins.