135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[14:39]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv þingmanni fyrir ræðuna og tek fram að það var fagnaðarefni að fá tillögur frá framsóknarmönnum í hendur nú eftir páska. Þegar hv. þingmaður kom heim úr orlofi sínu og trúboðsför til Kanaríeyja þá settist hann niður við að semja efnahagstillögur fyrir Framsókn. Þær litu svo dagsins ljós og þar er margt ágætt og eru allar innlegg í þetta púkk. En við gengum frá og mótuðum okkar tillögur og settum þær fram fyrir um mánuði síðan.

Það er athyglisvert að heyra hv. þingmann tala um gamalt og nýtt í þessum efnum áður en hann tók það fram að Framsóknarflokkurinn væri níræður. Ég verð að segja alveg eins og er að ég fæ ekki botn í þann hugsunarhátt að tala um að vinstri sinnuð viðhorf í stjórnmálum, félagshyggja, gagnrýni á nýfrjálshyggju og markaðshyggju sé eitthvað gamalt. Er þá nýfrjálshyggjan svona ný og fersk? Er ekki veruleikinn sá að hún er 30–40 ára gömul hugmyndafræði, algjörlega stöðnuð og frosin föst og sífellt fleiri eru að opna augu sín fyrir því að hún hefur leitt miklar ógöngur yfir heiminn?

Hv. þingmaður Ögmundur Jónasson var einmitt að vitna í nýútkomna bók eftir engan annan en nestorinn Soros sem frægastur var að sprengja breska pundið. Hann er núna kominn á þá skoðun að ógöngur alþjóðahagkerfisins í dag séu að verulegu leyti hömluleysi þessarar nýfrjálshyggju og græðgiskapítalisma að kenna. Er það þá eitthvað nýtt og ferskt sem við viljum skrifa upp á eða er það gamaldags og úrelt að leggja til félagslegar lausnir?

Ég vil líka biðja þá hv. þingmann að benda mér á hvað er gamaldags við það að leggja til og styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Hvað er gamaldags við að hvetja til sparnaðar? Hvað er gamaldags við að hvetja til að sveitarfélög sem standa illa verði styrkt, að takast á við ójafnvægi milli landshluta? Hvað er gamaldags að leggja til aukna fjármuni í Nýsköpunarsjóð, Tækniþróunarsjóð og til nýsköpunar og fjölbreytni í atvinnumálum? Hvað er gamaldags við að leggja til að styrkja Fjármálaeftirlitið? Vill ekki hv. þingmaður finna orðum sínum stað?

Ég tek skýrt fram að ég er ekki viðkvæmur fyrir því þótt hugmyndir mínar séu kallaðar gamaldags (Forseti hringir.) eða að þær séu kallaðar þjóðlegar eða hvað annað. Ef þær eru góðar þá eru þær góðar og það er það sem skiptir máli.