135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[16:18]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að fátt er nýtt undir sólinni, ekki nokkur hlutur, og sagan endurtekur sig. Það eru sveiflur, það koma feit ár og mögur ár og skiptast á skin og skúrir. Það væri líka gaman að ræða um jöklabréfin, sem hér var minnt á í frammíkalli. Mér finnst nú aðalatriði til skilnings á því fyrirbæri að menn muni að þau eru afleiðing af ástandi sem var orðið til í hagkerfinu en ekki orsök þess. Þau byrjuðu að streyma inn í hagkerfið haustið 2005 þegar vaxtamunurinn var orðinn jafngríðarlegur og raun ber vitni milli Íslands og útlanda.

Það er alls ekki svo, frú forseti, að ég telji að hér sé allt svart og allt ómögulegt sem gerst hefur undanfarin ár. Það hef ég aldrei sagt. Það er oftúlkun á mínu máli þó að ég hafi oft verið gagnrýninn og viðurkenni það. Ég hef t.d. iðulega á undanförnum árum fagnað því og viðurkennt mikilvægi þess að ríkissjóður væri að greiða niður skuldir og stæði vel. Ég hef að vísu sagt: Skárra væri það nú á veltutímum og á þenslutímum og þegar menn selja verðmætar eignir í viðbót, skárra væri það nú ef afkoma ríkissjóðs væri ekki góð. En það er mikilvægt og jákvætt og ég bæti gjarnan við: Mér finnst það sérstaklega gleðilegt sem félagshyggjumanni vegna þess að ég ætla ríkissjóði mikilvægt hlutverk og ég vil að hann sé sterkur.

Ég hef í öðru lagi fagnað því að menn hafa verið að ráðast í samgöngubætur, það er kannski eitt af því sem ég tel mjög gott. Á þessu ári leggjum við t.d. mikla fjármuni í varanlegar og góðar fjárfestingar í samgöngubótum, það er fagnaðarefni. Þær verða þarna þessar góðu samgöngur hvað sem öðru líður. Þannig að það er síður en svo að allt sé ómögulegt.

En um leið er rétt að gagnrýna það sem er gagnrýnisvert og þar á meðal að ekki hefur verið innistæða fyrir öllu góðæristuðinu. Það hafa nefnilega ekki verið nógu traustar innstæður fyrir góðærishjalinu sem menn voru með munninn fullan af, meira að segja á árinu 2006 þegar viðskiptahallinn á Íslandi fór í 26% af vergri landsframleiðslu. (Forseti hringir.) Það er ekki sjálfbært góðæri, ekki sjálfbær hagvöxtur sem byggist á slíku.