135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að vinna bug á verðbólgu.

[15:22]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Engum blandast hugur um að mjög alvarlegt ástand ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar eftir að gengið féll um síðustu páska. Þannig segir Landsbankinn í frétt um það mál í byrjun mánaðarins að verðbólgan verði í sumar ríflega 10% að því gefnu að veiking krónunnar gangi að einhverju leyti til baka. En haldist krónan áfram veik megi reikna með að verðbólgan fari í 13%. Og bankinn segir að við slíkar aðstæður aukist hætta á því að háar verðbólguvæntingar festist í sessi og að verðbólga verði viðvarandi mikil.

Greiningardeild Glitnis kallaði á föstudaginn eftir skýrum aðgerðum stjórnvalda og Seðlabankans og það sem fyrst. Þar segir að tíminn sé naumur og nauðsynlegt sé að ekki líði langur tími þar til tilkynnt verði um þær aðgerðir sem vísbendingar benda til að séu í farvatninu. Bankinn segir auk þess í frétt sinni, með leyfi forseta:

„Auk þess skaða sem fjármálakerfið og fjármálastöðugleiki mun hljóta af seinagangi í þessum efnum er ljóst að trúverðugleiki íslenskra stjórnvalda og Seðlabankans mun hljóta talsverðan hnekki ef langur tími líður frá því að byrjað verður að ýja að aðgerðum og þar til eitthvað verður aðhafst.

Í þessu máli er ákaft kallað eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar og hún má nú gjarnan taka ákvarðanir á hraða hinnar hljóðfráu þotu. Ég vil því kalla eftir svörum hæstv. ráðherra: Hvenær er þess að vænta að ríkisstjórnin tilkynni um aðgerðir sínar? Því heimili landsins, sem eru skuldsettari en nokkru sinni fyrr, munu fara verst út úr því ef þessi spádómur rætist um 13% verðbólgu.