135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:45]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi er lagt til að skattgreiðslur af söluhagnaði af hlutabréfum verði ekki lengur innheimtar og framvegis megi lögaðilar sem selja hlutabréf með hagnaði draga hagnaðinn frá öðrum tekjum rekstursins og komast hjá skattgreiðslum af þeim hagnaði. Enn fremur hefur verið upplýst í umræðunni að uppsafnaður frestaður söluhagnaður síðustu sex ára, upp á 620 milljarða kr. sem af ættu að greiðast um 100 milljarðar kr. í skatt til ríkissjóðs, verði ekki innheimtur og að einhverju leyti muni þessir fjármunir birtast sem aukið eigið fé í ýmsum fjármálafyrirtækjum landsins.

Mér og félögum mínum í þingflokki Frjálslynda flokksins finnst of langt gengið í þessum efnum. Við lýsum við yfir andstöðu við þessi áform. Við munum greiða atkvæði gegn 2. gr. frumvarpsins þar sem meginkjarni þess kemur fram. Við tökum undir óskir um að málið gangi að nýju til nefndar.