135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:08]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru vissulega mörg verkefni sem hægt er að takast á við í hinum stóra heimi, en ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að við erum þarna hluti af alþjóðasamfélaginu, af þessum 40 ríkjum. Við höfum alla burði, við höfum alla getu, við höfum alla þekkingu til þess að taka þátt í þessu verkefni ásamt öðrum. Við leggjum ekki til hermenn eins og ýmsar aðrar NATO-þjóðir sem eru líka friðelskandi þjóðir og eru ekki fúsar til að leggja sitt fólk í hættu en gera það samt, eins og Danir í suðurhluta Afganistan, Kanadamenn, Hollendingar og Frakkar. Það leggja fleiri lönd til fólk á þessu svæði við miklu hættulegri aðstæður en við gerum.

Við leggjum til borgaralega starfsmenn til þess að sinna uppbyggingarstarfi og þetta land þarf svo mikið á því að halda, þetta er fimmta fátækasta ríki veraldar. Við höfum því miklu að miðla þarna og það eru öll rök til þess að við tökum þátt í þessu verkefni og sýnum þannig samstöðu á alþjóðavettvangi, ekki bara í orði heldur einnig á borði.