135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:20]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem enn í dag upp til að færa málefni Tíbetbúa í umræðunni um utanríkisstefnu Íslendinga. Ég sakna þess mjög að þeirra svari skuli ekki tekið í þeirri umræðu sem hér fer fram eða í þeirri skýrslu sem lögð hefur verið fyrir. Það liggur í raun ekkert fyrir um hvernig Íslendingar ætla að koma til móts við þessa svarlausu þjóð lengst austur í heimi.

Við höfum þegar heyrt svör hæstv. utanríkisráðherra sem ég hef ekki verið alls kostar sáttur við. Hún hefur fullyrt að atburðir í Tíbet geti engu breytt um afstöðu okkar Íslendinga. Ég kalla eftir því hvort hv. stjórnarþingmaður Jón Gunnarsson, sem tjáði sig um utanríkismálin og ég gat verið sammála öllu sem fram kom hjá honum, sé sáttur við þessa afstöðu. Ég held, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, að mannréttindamálin séu mikilvægur þáttur í utanríkisstefnu okkar. Við þurfum ekki að taka þátt í þeirri stórlaxapólitík heimsins sem segir að okkur komi ekki við hagur þeirra sem eru undir hæl hinna stóru.

Við þurfum einmitt að geta tekið svari hinna litlu í heiminum. Þess vegna er mikilvægt að rödd okkar heyrist í málefnum Tíbets, málefni sem er ofarlega á baugi í heimspólitíkinni og hefði fyrr mátt vera.