135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

áskoranir frá Bandalagi íslenskra listamanna.

509. mál
[13:15]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir þessa fyrirspurn sem vekur upp ljúfar minningar um góða fundi með Bandalagi íslenskra listamanna. Ég tel þá mikilvæga, fundi mennta- og menningarmálaráðherra Íslands við þetta umhverfi, við heim listamanna. Bandalag íslenskra listamanna er í forsvari fyrir því og samræðan á þeim fundum er oft mjög opinská og við erum ekki alltaf sammála.

En varðandi frekari stefnumótun á sviði menningar og lista þá er þetta afar mikilvægur vettvangur sem skilar sér tvímælalaust inn í stefnumótunina með einum eða öðrum hætti. Þetta eru góðir fundir, haldnir árlega og farið er yfir ýmis mál. En í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður:

Hvernig hyggst ráðherra bregðast við áskorunum aðalfundar Bandalags íslenskra listamanna 16. febrúar 2008 um að móta stefnu um uppbyggingu og framþróun menningar og lista á Íslandi?

Á árlegum samráðsfundi stjórnar BÍL með mér, sem haldinn var 27. mars síðastliðinn, var áskorun bandalagsins um mótun menningarstefnu til umræðu. Þar greindi ég sérstaklega frá því að stefna ráðuneytisins birtist ekki hvað síst í löggjöf, framlögum í fjárlögum, verkefnum ráðuneytisins og ýmsum samningum. Nokkrar sérgreindar stefnur eru í gildi svo sem menningarstefna á landsbyggðinni og menningarstefna í mannvirkjagerð sem ég vil hvetja alla þingmenn til að kynna sér. Íslensk málstefna er nú í mótun og verður kynnt. Ég hef sagt að við munum ræða hana á komandi haustþingi.

Það hefur bæði kosti og galla að setja fram skriflega menningarstefnu til nokkurra ára. Sú hætta er fyrir hendi að hún gæti orðið of bindandi og heft þann sveigjanleika sem við höfum til að bregðast við óvæntum verkefnum sé þeirra ekki getið í slíkri stefnu. Það má búast við að talsverð togstreita geti orðið um hvað eigi að vera í menningarstefnu og hversu nákvæm hún eigi að vera, m.a. með tilliti til fjárframlaga. Þetta er reynsla starfsfélaga minna á Norðurlöndunum.

Ég er hins vegar reiðubúin til þess að skoða málið frekar, t.d. mætti skilgreina meginmarkmið til næstu ára og draga saman megináhersluþætti sem birtast skuli í lögum, fjárveitingum og hinum ýmsu samningum. Ég vil geta menningarsamninga við landsbyggðina alla, sem við kláruðum núna á síðasta ári. Sama gildir um ýmis önnur verkefni sem ráðuneytið vinnur að, draga má fram bókamessuna í Frankfurt sem verður að mínu mati eitt stærsta og mikilvægasta kynningarátak sem við förum í á næstu árum.

Ég efast hins vegar um, eins og það bar að, að sú menningarkynning hefði verið sett inn í menningarstefnu sem hefði verið mótuð fyrir tveimur, þremur árum. Þetta er spurning um sveigjanleika, sem ég tel dýrmætan. En það væri ýmislegt hægt að draga fram í svona yfirliti, gott að hafa yfirlit fyrirliggjandi, hvernig við ætlum að standa að baki menningunni í landinu og hvert sé takmarkið til næstu ára. Ég er þó ekki viss um að það sé þess konar stefna sem Bandalag íslenskra listamanna kallar eftir heldur miklu frekar aukin fyrirheit um fjárveitingar og fleira.

Í öðru lagi er spurt um hugverk, hvort ég ætli að viðurkenna hugverk sem eign sem falli undir lagaákvæði um fjármagnstekjuskatt. Almennt er ég fylgjandi einföldu skattkerfi án undanþágna. Ég tel að það komi til greina að hugverk falli undir skilgreiningu á eign í skattalegu tilliti. Ég hef sagt það en vil hins vegar geta þess að skattamál eru á könnu fjármálaráðherra. Því átti fyrirspurnin hvað þetta varðar að beinast sérstaklega til hans.

Í þriðja lagi er spurt hvort eigi að efla starfslaunasjóð listamanna og endurskoða lög um starfslaun listamanna. Þetta mál var einnig til umræðu á fyrrgreindum samráðsfundi. Mikið púður fór í akkúrat þann lið, enda þörf á. En það er rétt að draga fram að það eru skiptar skoðanir meðal aðildarfélaga Bandalags íslenskra listamanna um hvar skuli bera niður. Á að fjölga starfslaununum? Á að hækka mánaðargreiðslur frekar eða hvort tveggja, eins og mér heyrist flestir vilja?

Hvað með nýju greinarnar? Hvað með unga fólkið? Mig minnir að í Danmörku hafi viðbótin verið sett í ákveðinn sjóð sem hafði það markmið að efla unga listamenn í einhvern skamman tíma til að ýta við þeim og gefa þeim aukin tækifæri.

Í vetur hófst vinna í ráðuneytinu við endurskoðun á lögum um listamannalaun með síðari breytingum. Ég hef þegar lýst því yfir að efling starfslaunasjóða listamanna verði forgangsmál ráðuneytisins á sviði lista en það er ljóst að eftirspurnin verður meiri, eins og við þekkjum, en framboðið.

Endurskoðun laganna er liður í að efla sjóðinn. Núgildandi kerfi hefur reynst vel. Við sjáum að gróskan í lista- og menningarlífi þjóðarinnar hefur aldrei verið jafnmikil og (Forseti hringir.) um þessar mundir. Ég vil hins vegar ítreka, frú forseti, að við munum halda áfram að forgangsraða í þágu starfslauna til listamanna.