135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

dreifmenntaverkefni í grunnskólum Vestur-Barðastrandarsýslu.

567. mál
[14:13]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna um þetta mikilvæga verkefni á sunnanverðum Vestfjörðum sem við höfum verið að ræða og ég bind miklar vonir við að haldið verði áfram með. Það er líka mikilvægt varðandi þróun og möguleika annars staðar á svæðinu að við höfum þarna sérstakt tækifæri, sérstaka auðlind sem er núna falin í þeirri reynslu og þekkingu sem skólasamfélagið á þessu svæði hefur öðlast. Það er rétt sem hér kom fram að þetta var samstarfsverkefni milli iðnaðar- og menntamálaráðuneytis að tillögu menntamálaráðuneytisins, en margt er skrýtið í kýrhausnum eins og sagt er og það var ekki hægt að fá fjármagn til þess nema það færi í gegnum iðnaðarráðuneytið á sínum tíma.