135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[18:23]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Elsku hjartans hv. 8. þm. Norðausturkjördæmis, þær framkvæmdir sem hv. þingmaður er að vísa til, hverjar mundu þær verða? Bakki? Helguvík? Það eru engin leyfi sem Helguvík tengjast sem varða iðnaðarráðuneytið. Engin. Það er ekki um það að ræða að hægt sé að halda því fram að þarna sé verið að reyna að flýta Helguvík. Hv. þingmaður gæti haldið því fram að með þessu væri á ferðinni djúpt samsæri um að hnika til leyfisveitingum varðandi Bakka. Ég veit ekki betur, samkvæmt mínu roskna minni sem þó er alveg prýðilegt, en að sú framkvæmd sé í reynd handan þess tíma sem þjóðhagsáætlunin, sem hv. þingmaður vísaði til áðan, nær til.

Að því er varðar þau köpuryrði sem hv. þingmaður hefur sent til hæstv. umhverfisráðherra er rétt að taka eftirfarandi fram: Það er fráleitt að túlka það þannig að hæstv. umhverfisráðherra hefði með ákvörðun, sem hefði hnigið í andstæða átt við það sem raunin varð, stöðvað Helguvík, jafnvel þótt hugur hennar hafi staðið til þess.

Deilan snerist um það að setja þá framkvæmd í heildarmat á grundvelli tiltekins ákvæðis. Það var andlag kæru Landverndar. Það snerist ekki um það að kippa til baka leyfum sem veitt hafa verið eða koma í veg fyrir að leyfi yrðu veitt á grundvelli faglegra sjónarmiða. Það snerist ekki um það heldur einungis um að taka þessa þrjá þætti, línulagnir, verið sjálft og orkuöflun og setja í heildarmat. Það hefði ekki falið í sér sjálfkrafa höfnun á framkvæmdinni. Það hefði kannski tafið hana. En það hefði ekki falið í sér neina höfnun. En eins og hv. þingmaður talaði (Forseti hringir.) mátti hann skilja hann svo að hann teldi að þá hefði það dæmi verið búið. Svo er ekki.