135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

skattlagning á lífeyrissjóðstekjur.

395. mál
[14:28]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er greinilegt að hv. þingmönnum líkar ekki svarið og þá er brugðið á gamla ráðið að menn telji alla hluti svo flókna að ekki sé hægt að framkvæma þá. Þegar svarað er fyrirspurn eins og þessari verður auðvitað að greina frá því hvað þyrfti til að koma til að breytingin yrði gerð. Það er einfaldlega þannig að það yrði til flókið kerfi og til þess að breytingin gæti verið í samræmi við annað þyrfti líka að fella niður skattleysið eða skattfrestunina sem veitt er í upphafi af iðgjaldinu. Þó að mönnum líki ekki svarið þýðir ekkert að fussa og sveia yfir því. Staðreyndin er sú, sama hvernig á það er litið, að kerfið sem við höfum verið með er hagstæðara en að skattleggja lífeyrissjóðsgreiðslurnar á sama hátt og fjármagnstekjur og sá sparnaður sem því tengist.

Í þeirri stöðu sem er núna er um að ræða persónuafslátt og hann er að vissu leyti frítekjumark í þeim skilningi og eins og kom fram í svarinu er mjög stór hluti greiðslna úr lífeyrissjóðum ekki skattlagður vegna þess. Ef farið yrði með þessar greiðslur eins og fjármagnstekjur yrði sá hluti skattlagður af því að þar er ekki frítekjumark. Og ef menn ætla að bæta frítekjumarki inn í fjármagnstekjuskattinn á þá bara að vera frítekjumark fyrir svona fjármagnstekjur en ekki einhverjar aðrar fjármagnstekjur? Ég held að hv. þingmenn viti það sjálfir, og það sé að hluta til þess vegna sem tónninn í þeim er eins og hann er, að þetta er hlutur sem er, eins og ég orðaði það í svari mínu áðan, ekki fýsilegt að gera.