135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

Búrfellsvirkjun.

427. mál
[14:48]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur margsinnis í vetur spurt mig margra lunkinna spurninga um orkumál. Þessi spurning stendur síst á sporði þeim sem hann hefur áður borið upp.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að Búrfellsvirkjun hefur í orkulegu sjónarmiði heppnast ákaflega vel. Ég er auðvitað sammála honum um það að almenningur eigi að njóta þess þegar búið er að byggja virkjanir og þær hafa afskrifast. Ég er þó þeirrar skoðunar eins og ég kem að síðar í svarinu að hann geri það að töluverðu leyti.

Nú spyr hv. þingmaður mig út í orkuframleiðslu Búrfellsvirkjunar og sömuleiðis verðlagningu á raforku á afskrifuðum virkjunum. Þá er frá því að greina að Búrfellsvirkjun er ekki samkvæmt bókhaldi að fullu afskrifuð. Árin 1997–1998 voru töluverðar endurbætur gerðar á virkjuninni, það voru sett ný vatnshjól í alla hverfla hennar. Það leiddi til þess að uppsett afl hennar jókst úr 210 MW í 270, það er allgott. Þessi kostnaður við stækkunina og endurbæturnar var eignfærður þannig að í lok síðasta árs, 2007, var afskriftastofn sem var metinn á 6.850 millj. kr.

Hv. þingmaður spyr mig síðan hversu mikið er framleitt af rafmagni í virkjuninni og hversu hátt hlutfall það er af almenna markaðnum. Á síðasta ári nam þörf almenna markaðarins 3.500 GWst. og stöðin sem hv. þingmaður spyr um framleiddi u.þ.b. 2.500 GWst. Það má því segja að ef öll framleiðsla hennar færi til almenna markaðarins næmi framleiðsla Búrfellsvirkjunar 75% af þörfum almennings í landinu.

Hv. þingmaður verður hins vegar að gera sér grein fyrir því að orkuverðið er ekki bara verðið á orkunni sjálfri sem almenningur er að greiða, af því að hv. þingmaður orðaði það þannig í aðfara sínum að spurningunni, heldur þurfa menn líka að greiða fyrir dreifingu og síðan flutninginn. Það verður enn fremur að hafa í huga að Landsvirkjun hefur ekki þessa miklu hlutdeild á almenna markaðnum og þar að auki er ekki nóg að Búrfell geti framleitt ákveðið orkumagn á tilteknum tíma, heldur þarf líka að vera til reiðu afl til þess að sinna mesta álaginu á kerfinu.

Hv. þingmaður spyr hvað það kosti að framleiða rafmagn frá slíkri virkjun. Frá því er bara ærlegast að segja að slíkar upplýsingar liggja ekki á lausu hjá Landsvirkjun, ráðuneytið hefur ekki þessar upplýsingar. Hér er um samkeppnisstarfsemi að ræða og í ársreikningum Landsvirkjunar er ekki heldur að finna sundurliðun á rekstrarkostnaði eftir virkjunum, heldur er kerfið ein heild. Hins vegar vill svo til, eins og hv. þingmaður veit, að iðnaðarráðherra hefur gengið í sama skóla og hv. þingmaður og út frá ýmsum upplýsingum sem liggja fyrir er kannski hægt að komast mjög nálægt þessu. Í áætlunum vegna vatnsaflsvirkjana er ekki óalgengt að miða við að rekstrarkostnaður sé 0,7% af stofnkostnaði virkjunar. Miðað við upplýsingar sem liggja fyrir um nýlegar virkjunarframkvæmdir kemst ég að þeirri niðurstöðu að ef eingöngu er miðað við rekstrarkostnað stærri vatnsaflsvirkjana megi gera ráð fyrir því að það kosti u.þ.b. 20 aura að framleiða hverja kWst. í vatnsaflsvirkjun. Þetta er mín niðurstaða, ekki Landsvirkjunar.

Hv. þingmaður spyr mig síðan hvort ég telji ekki rétt að almenningur njóti raforkuframleiðslu afskrifaðra virkjana í eigu hins opinbera í lægra raforkuverði og spyr mig hver njóti góðs af því. Ég er almennt sammála hv. þingmanni um að almenningur eigi að njóta þess og má kannski rifja upp hvað menn sögðu þegar þessi virkjun var byggð á sínum tíma. Hv. þingmaður man það örugglega betur en ég því að hann er miklu betur að sér í sögu raforku á landinu. Staðreyndin er samt sú að ef menn horfa bara á verð á orkueiningu hefur það farið lækkandi síðustu árin og í samanburði við nágrannalöndin stöndum við nokkuð vel hvað varðar raforkuverðið sjálft. Af því að landið er strjálbýlt og stórt er hins vegar dreifikostnaður og sérstaklega flutningskostnaður töluvert meiri. Það mætti velta fyrir sér hvort ekki væri með einhverjum ráðum hægt að finna leiðir til að draga úr honum.

Afskrifaðar virkjanir gera okkur sem sagt kleift að bjóða lægra raforkuverð og það er almenningur í landinu og fyrirtækin í landinu sem njóta góðs af því í dag. Þessu til viðbótar skila auðvitað fyrirtækin eigendum sínum hagnaði af rekstri og það vill svo til að þessi virkjun (Forseti hringir.) og þessar virkjanir eru í eigu hins opinbera og þar með almennings í landinu.