135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

Búrfellsvirkjun.

427. mál
[14:53]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það kemur auðvitað á óvart að iðnaðarráðherra og menn hans í ráðuneytinu skuli ekki fá þær sundurgreindu upplýsingar hjá Landsvirkjun sem kallað er eftir hér á þinginu. Þar sem Landsvirkjun er ekki mjög óskyldur aðili að formi til þarf að búa svo um hnútana að Landsvirkjun geti svarað spurningum af þessu tagi.

Þetta mál og hin ágæta ræða hæstv. ráðherra við hinni ágætu fyrirspurn hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar vekur upp spurninguna um það hvernig háttað sé þessari samblöndun hagsmuna almennings á raforkumarkaði annars vegar og hagsmuna stórfyrirtækjanna hins vegar og eykur langvarandi grunsemdir manna um það að almenningur í landinu sé í raun að borga niður orkuverðið til stórvirkjananna. Það væri æskilegt að geta fengið skorið úr um það í eitt skipti fyrir öll (Forseti hringir.) með áreiðanlegum tölum, en ekki ágiskunum iðnaðarráðherra — þótt ágætar séu — og útreikningum hans.