135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[12:52]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Hér er rætt mikilvægt mál. Ég vil gera athugasemdir við það nú strax að menntamálaráðherra virðist farin úr salnum. Svo nálgast hádegisverðarhlé ískyggilega. Ég velti því fyrir mér hvernig þessum ræðutíma verði háttað. Það er eins og öll framkvæmd á þessari umræðu sé upp og niður. Þetta mál var fjórða mál á dagskrá en var kippt fram fyrir. Ég vænti svara frá hæstv. forseta um hvernig þessari umræðu muni vinda fram.

(Forseti (EMS): Gert er ráð fyrir matarhléi að lokinni ræðu hv. þingmanns. En ef hv. þingmaður óskar eftir því að fresta ræðu sinni þá er sjálfsagt að verða við því. Ég tek eftir því að hæstv. menntamálaráðherra, sem vitað var að þyrfti að yfirgefa þinghúsið, virðist hafa gert það fyrr en ráð var gert fyrir. Ef hv. þingmaður vill geyma ræðu sína þar til síðar í dag þegar hæstv. ráðherra kemur aftur í hús þá er sjálfsagt að verða við því.)

Er verið að tala um hálftvö eða miklu seinna?

(Forseti (EMS): Forseti getur boðið hv. þingmanni að kannað verði með hæstv. ráðherra, hvort hún geti komið til að hlýða á ræðu hv. þingmanns nú þegar.)

Já, ég held að það sé best að gera það.

(Forseti (EMS): Forseti mun kanna það en býður hv. þingmanni að halda áfram ræðu sinni á meðan.)

Hæstv. forseti. Þetta var undarleg byrjun á ræðu minni. En mig langar að koma inn á umfjöllunarefni síðasta ræðumanns, hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar í andsvörum sem hann fékk frá öðrum þingmönnum. Vissulega eru önnur mikilvæg mál í menntamálanefnd. Það er mér til efs að þau mál klárist á vorþinginu. Þetta eru einfaldlega það stór mál. Þótt ég fagni því að fram sé komið frumvarp um opinbera háskóla og brýnt að ræða þau málefni þá er þetta kannski ekki alveg rétta tímasetningin.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir minntist á að gildistökuákvæðið væri frekar skammt undan, 1. júlí 2008, sem sýnir að þetta á að vinna með hraði. Ég held að betur færi á því að þessi umræða yrði ígrundaðri en hér er boðað.

Háskólanám er afar mikilvægt. Ég held að það komi fram í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og eins munurinn á áherslum stjórnmálaflokkanna. Við framsóknarmenn höfum sagt að við höfnum skólagjöldum í grunnnámi á háskólastigi. Við viljum að hér sé fjölbreytt háskólasamfélag og að allir njóti háskólamenntunar á grunnstigi, óháð efnahag og búsetu.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði í ræðu sinni að hann furðaði sig á að aðrir þingmenn hefðu tekið skólagjaldaumræðuna upp en ég vil af því tilefni …

(Forseti (EMS): Forseti biðu hv. þingmann að afsaka en borist hafa fregnir um að hæstv. ráðherra sé farin úr húsi. Hvort vill hv. þingmaður gera hlé á ræðu sinni þar til hæstv. ráðherra er kominn aftur eða halda áfram?)

Þá fresta ég henni.

(Forseti (EMS): Ljómandi. Þá hefur þú þinn hátt á.)

Ég held að það sé best að fresta ræðu minni. Hádegisverðarhlé verður eftir tvær mínútur og ég ítreka það að mér finnst ekki góður bragur á því starfsumhverfi sem við þingmenn búum við. Meiningin með nýjum þingsköpum var að breyta þessu. Mér finnst viss lítilsvirðing við þingið að taka til umræðu þessi mikilvægu frumvörp þegar hæstv. menntamálaráðherra getur ekki verið við umræðuna.

(Forseti (EMS): Háttvirtur þingmaður hefur gert hlé á ræðu sinni.)