135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[18:04]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir greinargóða framsögu með þessari viðamiklu tillögu. Það vekur athygli mína að á blaðsíðu 5 í greinargerðinni segir m.a., með leyfi forseta:

„Stjórnvöld munu leitast við að hafa sem víðtækast samstarf við samfélag innflytjenda, félagasamtök, sjálfseignarstofnanir og atvinnulíf um framkvæmdina og nýta þannig þá sérþekkingu sem myndast hefur um málefni innflytjenda á margvíslegum vettvangi, svo sem innan Rauða kross Íslands og Alþjóðahúss.“

Þetta vekur upp spurningar um að hvað miklu leyti þessir aðilar hafa fengið aðkomu að samningu tillagnanna sem hér liggja fyrir, svo góðar sem þær kunna nú að vera, sem ég ætla ekki að tjá mig um á þessu stigi. En mér býður í grun að þessir aðilar hafi kannski ekki fengið fyllilega fullkomna aðild að samningu tillagnanna. Ég spyr þess vegna, með tilvísun í það sem hér segir í greinargerðinni: Hver hefur aðkoma frjálsra félagasamtaka, sérhæfðra aðila Alþjóðahússins og Rauða krossins verið að samningu (Forseti hringir.) þessarar þingsályktunartillögu?