135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

545. mál
[20:46]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðnýju Hrund Karlsdóttur fyrir mjög snjalla ræðu og fyrir merkilegt framlag í þessa umræðu og jafnframt þarfa brýningu. Ég vil líta á þessa ræðu hv. þingmanns sem ákveðna brýningu til ríkisstjórnarinnar, til mín og hæstv. samgönguráðherra, um að taka á þessum málum sem skipta okkur svo miklu máli. Ég hef margoft sagt það úr þessum ræðustól að mikilvægustu byggðamálin í dag eru að efla samgöngur, fjarskipti og menntun. Það eru lykilatriðin varðandi umræðu um málefni lánasjóðsins, málefni skólakerfisins alls út frá þeim forsendum sem hv. þingmaður gerði svo vel grein fyrir í ræðustól áðan. Ég vil því sérstaklega þakka fyrir þessar ábendingar sem munu stuðla að því, þ.e. þegar við fylgjum þeim eftir, að við munum áfram auka jafnrétti til náms og fjölga jöfnum tækifærum sem eru okkur svo mikilvæg varðandi menntunina. Ég vil enn og aftur þakka hv. þingmanni fyrir þetta innlegg. Hún þekkir málið líka vel af eigin reynslu sem fyrrum sveitarstjóri á landsbyggðinni.