135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

ferjusiglingar á Breiðafirði.

[15:22]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þingmaður gat um er hér um samning að ræða, svokallaðan niðurtröppunarsamning. Samkvæmt þeim samningi er gert ráð fyrir að ferðum fækki til ársins 2010 og að þær verði þá ekki ríkisstyrktar lengur. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni er þetta tengt framkvæmdum á sunnanverðum Vestfjörðum.

Töluverðar framkvæmdir eru fyrirhugaðar þótt sumar séu ekki komnar í gang enn. Því miður hafa kærumál og annað slíkt tafið fyrir, t.d. í Teigsskógi, í Gufufirði og í Djúpafirði, og hefur málið komið til ráðuneytisins bæði frá sveitarfélögum á sunnanverðum Vestfjörðum og eins frá ferðamálasamtökum. Mér er einnig kunnugt um að málið var rætt við þingmenn Norðvesturkjördæmis ekki alls fyrir löngu á fundi á Patreksfirði. Ég hef sagt það áður og skal segja það einu sinni enn að við verðum að skoða þessa hluti á jákvæðan hátt ef vegaframkvæmdum á sunnanverðum Vestfjörðum verður ekki lokið og vegir komnir í almennilegt ástand árið 2010 eins og ætlað var þegar samningurinn var gerður.

Ég ítreka það sem hér hefur verið sagt: Þessi niðurtröppunarsamningur var gerður og í honum er gert ráð fyrir fækkun ferða en þó eru ferðir ríkisstyrktar yfir vetrartímann þegar ástandið er hvað verst. Ég vona því að þetta svari spurningu hv. þingmanns en þakka henni jafnframt fyrir að taka málið upp hér á Alþingi. Við verðum að skoða málið í framhaldi af því sem ég sagði hér áðan, þ.e. hverju fram vindur með samgöngubætur á sunnanverðum Vestfjörðum.