135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Bjargráðasjóður.

587. mál
[16:23]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hæstv. samgönguráðherra sem reyndar er horfinn úr salnum í augnablikinu en hlýtur að fara að skila sér. Hæstv. ráðherra flutti rök fyrir því að leggja ætti niður Bjargráðasjóð. Þegar maður lítur á frumvarpið í heild og skoðar textann sem þar liggur að baki kemur fram að Bjargráðasjóður Íslands var stofnaður með lögum árið 1913 í þeim tilgangi að koma til hjálpar landsmönnum í hallæri eða til að afstýra því eins og það er orðað. Maður sér það á textanum að langt er um liðið síðan sjóðurinn var stofnaður. Í 1. gr. laganna er hallæri t.d. skilgreint svo að sveitarfélag verði svo illa statt að það megni ekki af eigin rammleik að forða mönnum og skepnum við harðrétti eða felli. Þetta hljómar kannski fornaldarlegt en gerðar hafa verið breytingar á sjóðnum eftir þetta, gildandi lög um Bjargráðasjóð eru frá 1995 og sett var reglugerð á grundvelli þeirra laga 1998. Þingið hefur því skoðað lögin tiltölulega nýlega og sá þá ekki ástæðu til að leggja sjóðinn niður.

Hæstv. ráðherra færði rök fyrir því ýmsar stofnanir og félög væru til staðar núna sem gætu tekið yfir starfsemi Bjargráðasjóðs. Nefnd voru félagsþjónusta sveitarfélaga, Viðlagatrygging Íslands, Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga, Atvinnuleysistryggingasjóður o.s.frv. En það kemur líka fram í málinu eins og rakið hefur verið af öðrum þingmönnum að það er eiginlega ekkert sem kemur algjörlega í staðinn fyrir Bjargráðasjóð. Þar er enn hlutverk sem enginn annar gegnir eða getur leyst af hendi. Að mínu mati er IV. kafli greinargerðar frumvarpsins kannski mikilvægasti kaflinn og þar sem skýrast er farið yfir þetta mál. Þar kemur fram að til umræðu hafi verið um nokkurt skeið að leggja Bjargráðasjóð niður og athuga hvort tryggingar geti tekið við hlutverki hans og aðalástæðan sé sú að tjón eru ekki bætt að fullu og eigin áhætta tjónþola hafi hækkað á liðnum árum. Gerðar hafa verið kannanir á bótakerfi sjóðsins og það hefur verið borið saman við tryggingar sem í boði eru hjá tryggingafélögum. Svo kemur fram og ég ætla að vitna beint í textann hér, með leyfi forseta:

„Vandinn hefur einkum verið sá að ekki eru til tryggingar sem eru fyllilega sambærilegar við bótareglur Bjargráðasjóðs. Enn fremur hefur verið litið svo á að ekki væri unnt að koma á slíku tryggingakerfi á almennum markaði á meðan sjóðurinn er starfræktur.“

Þarna kemur fram að ekki sé til neitt sambærilegt og meðan sjóðurinn sé starfandi muni tryggingafélög líklega ekki fara inn á þennan markað og því spyr maður sig hvort tryggingafélög muni gera það verði sjóðurinn lagður niður. Maður áttar sig ekki á því og getur illa séð inn í framtíðina hvað það varðar. Mér finnst því eðlilegt að hæstv. samgönguráðherra, sem er nú kominn inn í salinn aftur, reyni að upplýsa þingheim hver framtíðin er. Hvað með það hlutverk sem sjóðurinn hefur haft og engin sambærileg trygging er fyrir í dag á almennum markaði? Verður ekki hægt að koma til móts við bændur þar eða er líklegt að almennu tryggingafélögin taki við því hlutverki, sem maður efast svolítið um sjálfur?

Hér er líka rakið að nefnd hafi farið yfir framtíðarhlutverk sjóðsins og í nefndinni sátu aðilar sem hafa kannski haft mestra hagsmuna að gæta, þ.e. Bændasamtök Íslands, félagsmálaráðuneytið, landbúnaðarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Það kemur fram að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi tekið skýrasta afstöðu gagnvart þessu máli, þ.e. sambandið vill leggja sjóðinn niður í núverandi mynd og afnema framlög sveitarfélaga til hans. Það eru ágætisrök fyrir þeirri afstöðu þeirra að hér sé frekar um að ræða atvinnumál tiltekinnar starfsgreinar en sveitarstjórnarmál og þótt það sé líka rétt sem kom fram m.a. í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að atvinnumál eru að sjálfsögðu málefni sveitarfélaga þá má færa rök fyrir því að sveitarfélögin eigi ekki að koma beint að einni atvinnugrein umfram aðrar.

Fram kemur að fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa rætt málið við ráðherra sveitarstjórnarmála á undanförnum missirum og lagt áherslu á að ná þyrfti sátt við Bændasamtök Íslands um málið. Það er sérstaklega tekið fram að Samband íslenskra sveitarfélaga, sem er kannski stærsti aðilinn sem hefur viljað knýja á um að leggja Bjargráðasjóð niður, hefur lagt áherslu á að sátt náist við Bændasamtökin um málið.

Síðan kemur fram, virðulegur forseti, að Landssamband kúabænda hafi líka viljað að búgreinin hætti þátttöku í búnaðardeild Bjargráðasjóðs en svo kemur fram að Bændasamtök Íslands og ýmis búgreinafélög, svo sem Landssamtök sauðfjárbænda, Svínaræktarfélag Íslands, Félag kjúklingabænda og Félag eggjaframleiðenda, hafi ekki lýst jafneindreginni afstöðu til áframhaldandi starfsemi Bjargráðasjóðs. Þessi félög telja Bjargráðasjóð veita bændum mikilvæga tryggingavernd þótt starfsemin sé nokkuð umdeild meðal bænda. Jafnframt kunni að vera erfitt fyrir búgreinafélögin að fá góða sjúkdómatryggingu fyrir sína félagsmenn. Meðal annars var nefnd sú hugmynd að Bændasamtök Íslands gætu tekið að sér að reka sjóðinn og gert um það samning við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið ef sveitarfélögin og Landssamband kúabænda hætta þátttöku.

Þetta kemur allt mjög skýrt fram, virðulegur forseti, og því er eðlilegt að hæstv. ráðherra upplýsi það í seinni ræðu sinni hvort hér sé algjörlega tekið út af borðinu að Bændasamtök Íslands geti tekið að sér að reka sjóðinn af því að þær hugmyndir hafa verið á lofti. Eins og ég hef skilið málið hefur ekki verið haft eðlilegt samráð við Bændasamtökin um niðurstöðu þessa máls, það eru a.m.k. þau skilaboð sem maður heyrir þó að það kunni að vera málum blandið og því eðlilegt að hæstv. samgönguráðherra upplýsi það í lokaræðu sinni hvernig þessu samráði var háttað við Bændasamtökin. Hvernig var þetta samráð? Er það rétt sem maður heyrir að það hafi verið lítið sem ekkert samráð? Getur það verið? Getur verið að Bændasamtökin hafi heyrt af því á skotspónum að þetta mál hafi verið lagt fram á þinginu? Getur það staðist? Eða eru þetta rangar upplýsingar sem maður hefur fengið? Ég vil gjarnan að hæstv. ráðherra upplýsi þingmenn nákvæmlega í hverju þetta samráð fólst. Hvernig það var og hver niðurstaðan af því var. Var niðurstaðan sú að leggja fram þetta frumvarp fram núna með afbrigðum og drífa það í gegn?

Í 2. gr. frumvarpsins kemur fram að verði sjóðurinn lagður niður, eins og hér er lagt til, verði einungis miðað við tjón sem verði fyrir 30. júní 2008. Þau eru styrkhæf. Fram kemur að skila verði umsóknum um bætur úr sjóðnum fyrir 15. nóvember 2008 til að tjón fáist bætt og að almennt hafi verið miðað við að umsóknir berist sjóðnum innan árs frá tjónsatburði. Talin er ástæða til að stytta þann frest í frumvarpinu til að draga ekki um of úr vinnu við niðurlagningu sjóðsins. Það á bara að drífa þetta í gegn og gefa ekki þetta ár eins og verið hefur hingað til til að skila inn umsóknum um styrki frá þeim sem lenda í áföllum. Það á bara að drífa þetta af til að það taki sem stystan tíma að leggja niður sjóðinn.

Ég tel ástæðu fyrir þingheim að fá það upplýst núna við 1. umr. hvort til greina komi af hálfu ríkisstjórnarinnar eða af hálfu hæstv. samgönguráðherra sem flytur málið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að endurskoða þetta. Hvort miklir hagsmunir séu í húfi við það að lengja þennan frest. Hvort ekki megi hafa hann áfram eitt ár eins og verið hefur. Ég tel að það kosti ekki nein fjárútlát og að auðveldlega væri hægt að hafa þennan frest jafnlangan og hann hefur verið hingað til.

Ég vil líka inna hæstv. ráðherra eftir því, eins og aðrir þingmenn hafa gert, hvert verði hlutverk ríkissjóðs gagnvart þessu máli. Nú er ljóst að ríkissjóður hefur verið að leggja fram 10 millj. á ári miðað við það sem hér kemur fram. Framlag ríkissjóðs hefur verið 10 millj. á ári undanfarin ár. Er meiningin að taka þessa upphæð af bændum? Er það meiningin? Á ekki að setja þetta fjármagn með öðrum hætti inn í aðstoð við bændur? Þetta eru peningar sem ríkið hefur verið að leggja fram, eiga þeir að gufa upp eða stendur til að bændur njóti áfram góðs af þessari upphæð?

Virðulegur forseti. Ég tel mjög mikilvægt að farið verði vel yfir þetta mál í samgöngunefnd þingsins vegna þess að almennt stendur landbúnaðurinn frekar höllum fæti, því miður. Það eru miklar hækkanir á aðföngum, til stendur að flytja inn hrátt kjöt o.s.frv. og ýmsar ógnanir steðja því að landbúnaði. Hann getur lent í áföllum sem Bjargráðasjóður hefur aðstoðað við að bæta og þó að ég hafi að sjálfsögðu skilning á því að alltaf sé ástæða til að endurskoða starfsemi sjóða og stofnana, sérstaklega þegar nýjar stofnanir og nýir sjóðir koma til eins og hægt er að færa rök fyrir í þessu tilviki, þá hefur sjóðurinn samt haft ákveðið hlutverk sem er mjög óskýrt hvort einhver taki að sér. Það vekur upp óróleika og ég sé sérstaka ástæðu til að hæstv. samgönguráðherra reyni að skýra það betur fyrir þingheimi hvað verði um þau tilvik sem enginn virðist eiga að sinna verði sjóðurinn lagður niður og ekkert kemur í staðinn.

Ég ítreka það að ég vil gjarnan að ráðherra upplýsi um samráðið sem haft var við Bændasamtökin af því að gefið hefur verið út af núverandi ríkisstjórn að hún ætli að stunda mikið samráð en ítrekað er verið að taka ákvarðanir í engu samráði hvorki við aðra stjórnmálaflokka né hagsmunasamtök og það er mjög alvarlegt. Fyrsta alvarlega málið að þessu leyti var í sumar þegar meiri hluti Alþingis breytti uppbyggingu ráðuneyta. Þá voru t.d. skógræktarmálin færð frá landbúnaðarráðuneyti yfir í umhverfisráðuneyti í algjörri óþökk Skógræktarinnar og í engu samráði við hana. Það var að mínu mati til mikillar skammar því að ekki einn einasti umsagnaraðili mælti með þessu. Enginn. Það voru algjörlega kaup kaups milli stjórnarflokkanna. Sjálfstæðisflokkurinn var að bæta upp fyrir þá málaflokka sem hann fékk meiri völd í með því að færa völd yfir til Samfylkingarinnar, færa skógrækt yfir til umhverfisráðuneytisins frá landbúnaðarráðuneytinu. Það er alveg ljóst að það voru kaup kaups í algjörri ósátt við hagsmunasamtök og í engu samráði við þau frekar en við stjórnarandstöðuna.