135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:43]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert gys að 4 millj. sem á að verja í verðlagseftirlit. Það er nákvæmlega sá grunnur sem þarf að leggja og þó að þessi upphæð sé lág og táknræn undirstrikar hún hins vegar mjög mikilvæg sannindi og þau eru að verðbólgutölurnar sem við sjáum núna eru grafalvarlegar og þær eru aðför að hagsmunum heimila í landinu. Það er mjög mikilvægt að við snúum bökum saman og hefjum þjóðarátak í að vinna gegn þeirri sjálfvirku hrinu verðhækkana sem komin er í gang.

Fyrir fáeinum árum hafði Alþýðusamband Íslands forgöngu um að snúa til baka frá hengifluginu og kallaði til liðs við sig Samtök atvinnulífsins, stærstu fyrirtæki landsins og bankana, alla saman og sagði: Nú verðum við að snúa til baka. Og það tókst.

Vandinn núna er gríðarlegt alvöruleysi í samfélaginu yfir stöðunni eins og hún er orðin. Hagsmunir fólks og hagsmunir fyrirtækja eru í húfi og ástandið er orðið grafalvarlegt. Þess vegna hlýtur maður að kalla eftir því að fyrirtækin leggist nú á árarnar með Alþýðusambandinu og vinni að því að endurheimta stöðugleika í landinu, því að það má ekki verða seinna en strax. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu taka þátt í þeirri vegferð. Hitt er svo aftur annað mál að við erum ekki gæfulaus þjóð og getum þakkað fyrir a.m.k. eina blessun við þessar erfiðu aðstæður og það er sú blessun að við höfum Framsóknarflokkinn ekki í ríkisstjórn (Gripið fram í.) vegna þess að við höfum séð hvaða tillögur hann hefur fram að færa í þessum málum sem eru þrjú álver og vaxtalækkun strax. Hvernig menn ætla að haga skynsamlegri efnahagsstefnu við þær aðstæður er auðvitað öllum skynsömum mönnum hulin ráðgáta. En þetta er uppskriftin sem Framsóknarflokkurinn býður upp á (Gripið fram í.) og það er mjög gott að við höfum ekki slíka brennuvarga í slökkviliðinu í dag. (Gripið fram í: En fjármálaráðherra?)