135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[15:23]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um breytta stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Eins og komið hefur fram hér hjá 1. flutningsmanni, hv. þm. Jóni Magnússyni, er þessi tillaga flutt af þrem þingmönnum Frjálslynda flokksins, þeim hv. þm. Jóni Magnússyni, Guðjóni Arnari Kristjánssyni og Grétari Mar Jónssyni, og auk þess af þrem þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þeim Atla Gíslasyni, Jóni Bjarnasyni og Ögmundi Jónassyni.

Þessi tillaga kveður á um að Alþingi skuli hlíta niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 24. október 2007 í máli nefndarinnar þess efnis að fiskveiðistjórnarkerfi Íslendinga, sbr. lög nr. 116/2006, áður lög nr. 38/1990, brjóti í bága við alþjóðasamninga um borgaraleg réttindi og stjórnmálaleg réttindi sem Ísland hefur staðfest með auglýsingu þar að lútandi. Alþingi hefur þá samþykkt það líka með þingsályktunartillögu frá 8. maí 1979 þar sem Alþingi hefur staðfest það að fara eftir áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þetta er því í sjálfu sér grafalvarlegt mál.

Hvers vegna er þessi þingsályktunartillaga þá flutt? Var ekki sjálfgefið að ríkisstjórnin mundi svara því til að hún mundi þegar í stað setja í gang vinnu til að fullnægja áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna? Ef það hefði verið gert hefði ekki verið tilefni til að flytja þessa tillögu.

Nei, ríkisstjórnin brást nefnilega allt öðruvísi við og lét að því liggja að ekki væri ætlunin að fara að þessu áliti.

Ég er með Fréttablaðið frá 16. janúar sl. þar sem forsætisráðherra Geir H. Haarde segir, með leyfi forseta:

„Þetta álit er athyglisvert. Það er hins vegar ekki bindandi fyrir Íslendinga að þjóðarrétti og veitir engar vísbendingar um hvernig nefndin ætlast til að við sé brugðist. Og rökstuðningur er fátæklegur.“

Þarna gefur forsætisráðherra dómnefndinni, mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, berlega langt nef og að segja að þetta sé athyglisvert er það fínasta orð sem hæstv. forsætisráðherra getur notað. Síðan gerir hann lítið úr rökstuðningi nefndarinnar o.s.frv. þannig að það er ekki að heyra á áliti hans þarna að ætlunin sé að fara eftir þessu.

Hins vegar segir hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún í sama viðtali, með leyfi forseta:

„Ég hef sagt að okkur beri að taka áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna mjög alvarlega.“

Ég ítreka það, þarna strax komu ólík viðbrögð forustumanna ríkisstjórnarflokkanna sem sýndu að það var engan veginn víst að það ætti að fara eftir þessu máli.

Það er síðan áréttað í fréttum hvað eftir annað, fulltrúar og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins draga lappirnar og gefa lítið út á álitið, tortryggja það, tala niður til þess, segja að það sé illa unnið, það sé engin ástæða fyrir Íslendinga til að fara eftir þessu. Það var því orðin fyllileg ástæða til að flytja hér formlega þingsályktunartillögu af hálfu Alþingis sem kvæði skýrt á um þetta mál.

Í sjónvarpsfréttum frá 11. janúar 2008 segir þannig, með leyfi forseta:

„Íslendingar geta ekki ætlast til þess að aðrar þjóðir virði mannréttindi fari þeir ekki eftir niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um fiskveiðikerfið.“

Þetta segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra.

Sjávarútvegsráðherra telur hins vegar ólíklegt að lögum verði breytt í kjölfar niðurstöðunnar. Bæði forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra töluðu þannig að það væri engin ástæða til að gera neitt sérstakt með álit nefndarinnar og það er einmitt ástæðan fyrir því að þessi þingsályktunartillaga er flutt þó að það sé í sjálfu sér á vissan hátt Alþingi og ríkisstjórninni til háðungar að þurfa að flytja hér sérstaka tillögu á Alþingi um að Íslendingar fari að alþjóðalögum og alþjóðasamningum sem við höfum undirgengist. Auðvitað er það dapurlegt og hefði verið betur að til þess hefði ekki þurft að koma.

Ég leyfi mér nú, herra forseti, að spyrjast fyrir: Hvar er formaður landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar? Hér hefur varaformaður landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar upplýst að hann haldi að það sé einhver vinna í gangi í sjávarútvegsráðuneytinu eða einhvers staðar varðandi þetta mál (Gripið fram í.) en þegar nánar hefur verið innt eftir því hvað sé að gerast getur hv. varaformaður landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar, Karl V. Matthíasson, engu svarað. Ég krefst þess hér, herra forseti, að fá formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur til að koma hingað og svara hvað sé að gerast. Ég þykist vita að sjávarútvegsráðherra sjálfur sé erlendis en mér er ekki kunnugt um að formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hafi neina fjarvist. Þetta er stórmál sem verið er að tala um og gera tillögu um, þ.e. að íslenska þjóðin fari að lögum. Ég spyr því um formann landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar, eða er kjarkleysi Sjálfstæðisflokksins svo algjört í þessu máli að hann þori ekki einu sinni að vera hér í þingsalnum sem ber ábyrgð á ferli þess hér innan þings?

Meðan verið er að ná í hv. formann landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar, þingmann Sjálfstæðisflokksins, vil ég víkja áfram að þessu máli. (Gripið fram í.) Já, það er hægt að rekja frekari fréttaflutning.

Hér segir Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður:

„Það er dýrkeypt ef Íslendingar ætla að hunsa álit Sameinuðu þjóðanna.“

Utanríkisráðherra verður þó að njóta þess sannmælis, formaður Samfylkingarinnar, að hún hefur lagt áherslu á að það yrði farið eftir álitinu enda gerir hæstv. utanríkisráðherra sér grein fyrir því að það væri hálfnöturleg staða að sækja samtímis um aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og jafnframt lýsa því yfir að ætla ekki að fara eftir meginsamþykktum þeirra. Það stendur ekki á okkur, og eðlilega, að hafa hátt um það ef aðrar þjóðir fara ekki að mannréttindaákvæðum Sameinuðu þjóðanna, grunnþáttum Sameinuðu þjóðanna sem Sameinuðu þjóðirnar eru í rauninni stofnaðar um, einmitt mannréttindi, réttindi alls fólks, einstaklinga og þjóða. Þá er mikilvægt að fá úr því skorið hvort íslensk stjórnvöld ætli ekki að virða þau.

Ef við víkjum frekar að þessu málefni kveður þetta á um, eins og segir í þingsályktunartillögunni og hefur verið rakið hér mjög ítarlega — kveður dómurinn á um að allir séu jafnir fyrir lögunum og eigi rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar. Lögin skulu því í þessu skyni banna hvers konar mismunun og ábyrgjast öllum mönnum jafna og raunhæfa vernd gegn mismunun, svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana og annarra skoðana, þjóðernisuppruna og félagslegs uppruna. Það er það sem mannréttindanefndin kemst að raun um að hafi ekki verið gert við úthlutun á fiskveiðiheimildunum í upphafi og þess vegna beri að taka þetta mál til skoðunar.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum einmitt líka lagt fram frumvarp á Alþingi, herra forseti, þar sem kveðið er á um að stjórn fiskveiða og skipulag þeirra skuli allt tekið til endurskoðunar (Forseti hringir.) enda hafa þau markmið sem sett voru við setningu laganna engan veginn náðst og við erum kannski fjær því nú en nokkru sinni síðan þau lög voru sett, herra forseti. (Forseti hringir.)

Ég ítreka, herra forseti, að ég hef óskað eftir því að formaður landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar komi hér áður en við ljúkum þessum umræðum.