135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:20]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Hér hafa menn verið að ræða um aflamarkskerfi og talað um að þau séu öll eins í heiminum. Það er auðvitað langur vegur frá og það er ekki frjálst framsal alls staðar í aflamarkskerfum og nýliðun kemst inn í aflamarkskerfið víðast hvar í heiminum. Það er ekki bundið upp á kíló eða gramm. Það er með allt öðrum hætti. Þess vegna segi ég stundum að menn sem tala um þessa hluti og hafa ekki vit á málunum, eiga að kynna sér þetta betur.

Okkar aflamarkskerfi er með allt öðrum hætti þar sem kvóti er framseljanlegur milli ára. Það er hægt að selja nýtingarréttinn. Það er hægt að veðsetja kvótann og það er hægt að leigja hann.

Við þurfum að athuga að hvernig sem við ætlum að taka á þessum málum núna varðandi álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna þá eru málaferli í gangi á ýmsum sviðum sem snúa að sjávarútvegi og kvótakerfinu. M.a. eru landeigendur sjávarjarða í málaferlum og búnir að fara með mál sín erlendis til þess að reyna að fá þar leiðréttingu á þeim.

Við höfum hlustað hér á afstöðu stjórnarliða. Það virðast vera skiptar skoðanir milli stjórnarflokkanna ef marka má þá sem hér hafa lagt orð í belg. Það virðist beinlínis vera að hluti Sjálfstæðisflokksins eða allur flokkurinn vilji hunsa álit mannréttindanefndar. Alla vega er það skoðun Sigurðar Kára Kristjánssonar að ekki þurfi að fara eftir þessu áliti.

Það virðast vera skiptar skoðanir innan Samfylkingarinnar. Þar tala flestir menn óljóst. (Gripið fram í.) En hv. varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar sem hefur nú verið að fjalla um þessi mál talar kannski skýrast. Aðrir virðast vera búnir að missa móðinn og trúa því að það sé meiri hluti í þinginu fyrir óbreyttu kvótakerfi sem á samkvæmt því sem maður heldur ekki að vera rétt vegna þess að hluti Samfylkingarinnar hefur viljað breyta þessu. (Gripið fram í.) En þeir ætla kannski að snúa af þeirri leið og sættast við stefnu íhaldsins í þessu eins og mörgu öðru.

En þegar Framsókn fer að tala um kvótann og hvaða leiðir eigi að fara í staðinn þá verður maður nú eiginlega orðlaus vegna þess að faðir kvótakerfisins var lengi vel formaður Framsóknarflokksins og þar að auki sjávarútvegsráðherra. Halldór Ásgrímsson var sjávarútvegsráðherra árið 1984 þegar þetta illræmda kvótakerfi var sett á og hefur hann borið ábyrgð á þessu kvótakerfi allar götur síðan.

Þess vegna er það fagnaðarefni þegar framsóknarmenn lýsa því yfir núna að þeir vilji að farið verði að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þar er auðvitað verið að taka U-beygju í þessum málum en ég hef ekki trú á því að samfylkingarfólk vilji vera í hópi mannréttindaníðinga. Ég trúi því aldrei að þeir muni leggjast svo lágt að fara þá leið.

Það er endalaust hægt að tala um þetta og það eru mörg atriði sem maður getur komið inn á. Hæstiréttur Íslands hefur dæmt í málum varðandi íslenskan sjávarútveg og kvótakerfi og um réttmæti hans. Við munum öll eftir Vatneyrarmálinu. Við munum öll eftir Valdimarsmálinu. En þessir dómar sem Hæstiréttur dæmdi eru að mati mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna ekki löglegir. Það er dálítið skondin staða að þeir tveir sem lögðu mál sitt fyrir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna þurfa núna að leita til Hæstaréttar á Íslandi (Forseti hringir.) um bætur.