135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

húsnæðissparnaðarreikningar.

[13:58]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Það fer kannski vel á því að ég komi í kjölfarið á síðustu fyrirspurn. En í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar, í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, er sagt að komið verði á húsnæðissparnaðarkerfi með skattfrádrætti fyrir einstaklinga 35 ára og yngri til að hvetja til sparnaðar hjá þeim sem hyggja á fyrstu kaup eigin húsnæðis eða búseturéttar.

Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra lagt fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um það að fella skuli niður stimpilgjöld hjá þeim sem kaupa íbúð í fyrsta sinn sem er mjög jákvætt að mínu mati. Um leið og ég fagna fyrrgreindri yfirlýsingu tel ég nauðsynlegt að stíga fleiri skref, enda held ég að það sé mun skynsamlegra að hvetja fólk til sparnaðar í stað þess að hvetja fólk til skuldasöfnunar eins og núverandi vaxtabótakerfi í raun gerir. Það hefur hingað til ekki þurft að hvetja Íslendinga til að taka lán en hins vegar er mikilvægt að koma upp kerfi sem hvetur til sparnaðar.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvenær getum við átt von á að sjá tillögur um húsnæðissparnaðarreikning með skattafslætti fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð? Það er nauðsynlegt fyrir ungt fólk að koma sér upp sæmilegri eiginfjárstöðu áður en ráðist er í fyrstu íbúðarkaup.