135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

mannekla á velferðarstofnunum.

[14:39]
Hlusta

Kjartan Eggertsson (Fl):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að vekja máls á því ástandi sem er á mörgum velferðarstofnunum vegna manneklu. Mörg störfin á velferðarstofnunum eru illa launuð þannig að það er enginn slagur um þau. Hvort sem ríkið, sveitarfélögin eða aðrir aðilar halda á málum í kjarasamningum starfsfólks velferðarstofnana hefur ríkissjóður mest um það að segja hversu mikið er eftir af launum fólks þegar skattar eru frádregnir. Skattleysismörkum þarf að lyfta upp með því að hækka persónuafslátt.

Ef ríkisstjórnin vill leysa úr manneklu á velferðarstofnunum ásamt því að koma til móts við aldraða og öryrkja á hún að hækka persónuafslátt launa. Það er ekki eðlilegt að reiknaður sé tekjuskattur af launum sem duga ekki fyrir framfærslu.

Frjálslyndi flokkurinn hefur á stefnuskrá sinni og leggur áherslu á það að persónuafsláttur verði hækkaður. Við Íslendingar höfum löngum unnið langan vinnudag og sumt af því fólki sem lægstar hefur tekjurnar vinnur nærri tvöfaldan vinnudag sökum þess hve stór hluti launanna fer beint til ríkisins í formi skatta. Það er löngu kominn tími til að hætta þessari skattáþján og lina erfiði þeirra sem lægstu launin hafa auk þess að bæta vinnuaðstæður. Um leið mundi manneklan á velferðarstofnunum samfélagsins stórlega minnka.