135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[19:45]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Gölluð lög er hægt að bæta og þeim er hægt að breyta. Það er ekki þar með sagt að eina leiðin sé sú sem hér er lögð til af stjórnarmeirihlutanum að gefast bara upp og að fella niður frestaðar tekjuskattsgreiðslur lögaðila af tekjustofni sem er af stærðargráðunni 450–600 milljarðar kr. Það munar nú um minna. Það er ekki á hverjum degi sem menn færa slíka sumargjöf og á einu bretti á silfurfati.

Það er að vísu rétt að það er sýnd veiði en ekki gefin að hve miklu leyti skattar kæmu til af þessum frestaða söluhagnaði. Þó segir um það í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur ekki líklegt að ríkissjóður eigi að óbreyttum lögum eftir að uppskera miklar tekjur ...“

Þarna er ekki fullyrt að engar greiðslur hefðu komið til ef menn hefðu ekki farið út í þessa breytingu. Þetta er að vísu ákaflega huglægt mat og ekki mikil nákvæmnisvísindi. En ég minni bara aftur á það að þetta eru áfallnar tekjur, tilkomnar tekjur sem á að greiða skatt af en menn hafa á grundvelli heimilda frestað greiðslunum og þannig er það bókfært. Það er raunveruleikinn.

Þess vegna finnst mér það dálítið ódýr afgreiðsla að gefa sér bara að það sé engin efnisleg aðgerð í sjálfu sér að slá striki yfir þetta allt saman. Hugsum okkur líka fordæmið sem þarna er gefið og samræmi í þessari skattaframkvæmd að öðru leyti. Er það venjan að öðrum aðilum en þessum stærstu gróðafyrirtækjum landsins í fjármálaheiminum séu færðar svona gjafir? Hefur örlætið verið svona þegar launamenn eða smáatvinnurekstur hafa lent í vandræðum og skulda skattinum? Ég hef ekki orðið var við það.

En stórfyrirtækin sem hafa fundið smugur fram hjá því að greiða eðlilega skatta af þessum mikla gróða undanfarin (Forseti hringir.) ár. Þau eiga nú að fá allt saman fellt niður með einu pennastriki. Það er undarleg jafnaðarmennska hvort sem menn koma úr Hafnarfirði eða hvaðan sem þeir eru ættaðir, (Forseti hringir.) verð ég að segja.