135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[12:43]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég held að það réttlæti ekki gerðan hlut að vísa til þess að þingsköpin hafi verið brotin einhvern tímann áður. Ef við ætlum að halda uppi aðskilnaði framkvæmdarvalds og löggjafarvalds þá verðum við að fara eftir settum reglum. Hér fer mál ekki til nefnda fyrr en búið er að leggja það fram með tilskildum fyrirvara eða afbrigðum eins og gert var í dag og nefndin vísar málinu áfram til umsagnar. Þannig eru reglurnar.

Ég er alveg viss um að það hefur verið vilji hjá heilbrigðisnefndarmönnum úr því sem komið er — að málið er komið hér á dagskrá — að hafa stuttan aukafund í dag (Forseti hringir.) til að vísa málinu til umsagnar. Vonandi næst þá samkomulag um að (Forseti hringir.) tíminn fram til haustsins verði notaður til að fara vel yfir frumvarpið.

En þetta er það alvarlegt brot, hæstv. forseti, að ég tek undir þá kröfu (Forseti hringir.) að það verði gert hlé og formenn þingflokkanna verði kallaðir saman með forseta.