135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[12:44]
Hlusta

Ásta Möller (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan þá var þetta gert að höfðu samráði við nefndasvið og með tilvísun í fordæmi. Þó það sé óvenjulegt þá liggja slík fordæmi fyrir. Að öðrum kosti hefði það ekki verið gert. Fyrst og fremst er þetta náttúrlega hugsað til þess að greiða fyrir störfum nefndarinnar. Ég held að aðalatriðið sé að þegar við förum að funda um málið annað kvöld reyndar og síðan aftur á þriðjudaginn að þá liggi fyrir þau gögn í málinu sem við þurfum að styðjast við.

Hvort það er þessi tímasetning eða einhver önnur varðandi hvenær málið er sent til umsagnar svo framarlega sem það er gert eftir þeim leiðbeiningum sem ég fæ frá nefndasviði þá er ekkert við það að athuga. Ég held að það sé engin ástæða til annars heldur en við höldum okkur áfram við umræðuna og að ræða efnisatriði málsins, það frumvarp sem er hér til umræðu. Þetta var gert (Forseti hringir.) til þess að greiða fyrir störfum nefndarinnar fyrst og fremst.