135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[15:27]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ásta Möller er mikill talsmaður einkavæðingar í heilbrigðisþjónustu og við höfum heyrt það og það hefur oft komið fram í umræðum í þinginu í vetur. Síðasta ræða hennar bar einnig vott um það og mig langar þess vegna til þess að rekja hér lítillega niðurstöður könnunar sem gerð var á árinu 2006, stór landskönnun á vegum Háskóla Íslands, landlæknis og Lýðheilsustöðvar, þar sem landsmenn voru spurðir um afstöðuna til heilbrigðisþjónustunnar og hvernig eigi að kosta hana, þ.e. hvort hún eigi að vera fyrst og fremst á forræði hins opinbera, hið svokallaða félagslega heilbrigðiskerfi eins og við þekkjum það og hefur tíðkast á Norðurlöndunum um áratugaskeið, eða hvort það eigi að kosta heilbrigðisþjónustu af aflafé manna. Niðurstöðurnar voru mjög athyglisverðar því að það kom fram að mikill meiri hluti vill fyrst og fremst að hið opinbera reki þessa starfsemi, sjúkrahús og heilsugæslu, upp undir 90%, heilsugæsluna um 76%.

Ég vil spyrja hv. þm. Ástu Möller hvort hún hafi kynnt sér niðurstöður þessarar könnunar og hvort hún telji að stefna ríkisstjórnarinnar um fjölbreytt rekstrarform — les einkavæðingu — sé í takt við vilja þjóðarinnar.