135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:57]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef alltaf verið jákvæð gagnvart þeirri hugmynd að taka hér upp blandað fjármagnskerfi eða blandaðan grunn á fjárframlögum til heilbrigðisstofnana. Ég hef horft til þess að hugsanlega gæti slíkt blandað kerfi orðið til þess að sýna í raun starfsemi og losa um fjárlagagerðina eins og hún hefur verið stunduð.

Nú er það ekki svo að fjárlaganefnd sé ekki kunnugt um stöðu heilbrigðisstofnana. Hún fær greinargerð, rekstraryfirlit og það sem kallað er eftir til þess að fara yfir stöðuna. Það á því að vera alveg ljóst við afgreiðslu fjárlaga hvort verið er að þrengja að eða ekki. Þetta er bara ákveðin stefna sem verið hefur í gangi, að þrengja að, hafa það í tæpasta lagi og meira en það. Það er vitað að ef það gengur ekki mun það verða bætt í fjáraukalögum. Þetta er náttúrlega fjárlagagerð sem stenst ekki nútímakröfur. Það verður bara að segjast eins og er. Þetta er ekki hægt og setur rekstur þessara stofnana í algjört uppnám.

En hvort við erum á réttri leið með því að nota RAI-matið hef ég fengið nokkrar efasemdir um eftir að hafa kynnst því hvernig gengið hefur hjá þeirri stofnun sem hefur fengið greitt að hluta til samkvæmt þessu RAI-mati, þ.e. blandaða greiðslu. Ég held að það sé mikilvægt að við skoðum vel hvort í matinu felist ekki bara of mikil vinna og of mikið eftirlit (Forseti hringir.) til þess að þetta gangi þokkalega, hvort möguleiki sé að raunmeta hjúkrunarþyngd viðkomandi (Forseti hringir.) stofnana með öðrum hætti.