135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

þjóðlendur.

386. mál
[21:02]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér er á dagskrá mikilvægt mál sem er búið að valda miklum óróa í þjóðfélaginu að ástæðulausu að mínu mati miðað við hvernig upphafið var og miðað við umræðuna hér á hv. Alþingi þegar lögin voru sett um þjóðlendur. Þá var ég þingmaður og sat í allsherjarnefnd þingsins þar sem það mál kom til umfjöllunar. Ég hef farið yfir framsöguræðu þáv. hæstv. forsætisráðherra Davíðs Oddssonar þegar hann mælti fyrir málinu og hef að sjálfsögðu lesið frumvarpið aftur og greinargerð. Allt það sem þar stendur bendir til þess að það hafi átt að halda allt öðruvísi á þessu máli en raunin hefur orðið.

Þar bera fyrrv. fjármálaráðherra Geir H. Haarde og núv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen ábyrgð á vegna þess að það er fjármálaráðuneytið sem gerir kröfu í landið. Svona er staða málsins, það er búið að valda miklum óróa og mótmælum á þeim svæðum þar sem krafa hefur verið gerð í lönd landeigenda sem hafa jafnvel borið óvefengd þinglýst eignarbréf. Það virðist ekki hafa skipt fjármálaráðuneytið nokkru máli. Í mörgum tilfellum er um land að ræða sem landeigendur hafa keypt af ríkinu og ríkið gerir síðan aftur kröfu í. Hér er því um mál að ræða sem ég held að sé á margan hátt alveg einstakt í sögu þingsins.

Fjármálaráðherrar, sérstaklega sá sem nú situr, hafa gefið yfirlýsingar — ekki síst fyrir síðustu kosningar — um að ætla að breyta vinnubrögðum og koma fram af meiri mildi gagnvart landeigendum en áður var. Það mjög hæpið að hægt sé að segja að hæstv. ráðherra hafi staðið við þau orð sem þar hafa verið látin falla, m.a. á fundum sem stjórn Félags landeigenda hefur átt með hæstv. ráðherra.

Þetta mál er lagt fram vegna þess að a.m.k. nokkrum þingmönnum ofbýður þessi málsmeðferð og telja það alla vega lágmark að þegar um þinglýst landamerkjabréf er að ræða sem ekki hafa verið vefengd þá eigi þau að gilda og þau beri að virða. Það er eiginlega lágmarkskrafa og það er sú krafa sem gerð er í þessu litla frumvarpi sem lætur ekki mikið yfir sér kannski en er þó gríðarlega mikilvægt.

Það er athyglisvert að ekki skuli fleiri þingflokkar hér á hv. Alþingi hafa treyst sér til þess að eiga aðild að málinu. Það er einnig athyglisvert að það skuli aðeins einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Árni Johnsen, hafa treyst sér til þess að flytja þetta mál en sú er raunin. Vinstri flokkarnir, Vinstri grænir og Samfylking, treystu sér ekki til þess að vera á þessu máli. Það hefur kannski sínar skýringar þegar litið er til þess að það eru ekkert óskaplega mörg ár síðan formenn þessara flokka — ef ég get talað um „þessa flokka“ — þ.e. flokka sem eru grundvöllur núverandi vinstri flokka, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag. Formenn þeirra flokka, hv. þingmenn sem þá voru, Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson, fóru um landið Á rauðu ljósi eins og sú fundaherferð var kölluð og Jón Baldvin síðar með herferðina Hver á Ísland? Að sjálfsögðu var það þeirra skoðun að það væru ekki landeigendur í þeim skilningi sem við leggjum almennt í það orð sem ættu Ísland heldur væri allt í sameign þjóðarinnar.

Það var upp úr þessu sem þáverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, tóku þá ákvörðun að reyna að koma þessum málum á hreint hvað varðar eignarhald á landi þar sem m.a. hafði fallið dómur sem gerði það mál allt mjög óljóst og því var lagt fram frumvarp til þjóðlendulaga. Það var mikilvægt að mínu mati á þeim tíma að þessir tveir flokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, beittu sér í málinu vegna þess að þessir flokkar hafa virt eignarréttinn fram til þessa. Það gerir Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur, hann virðir ekki eignarréttinn, hann vill bara taka landið af landeigendum miðað við það sem á undan er gengið. Það eru vissulega mikil tíðindi í íslenskri pólitík.

Svona standa málin, hæstv. forseti. Á þessu frumvarpi eru flutningsmenn sem hér segir: Bjarni Harðarson, Magnús Stefánsson, Höskuldur Þórhallsson, Árni Johnsen, Kristinn H. Gunnarsson og Guðjón A. Kristjánsson. Það eru sem sagt fyrst og fremst þingmenn Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins sem flytja málið en einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þingmaður Suðurkjördæmis, Árni Johnsen.

Ég tek undir orð síðasta ræðumanns, ég vonast til þess að þetta mál fái meðferð í þinginu. Það var a.m.k. lagt fram nógu snemma til þess að fá þinglega meðferð. Það er ekki hægt að segja um öll þau mál sem hafa verið tekin hér til umfjöllunar í dag og virðist mikill áhugi á og mikill þrýstingur á að koma í gegnum þingið á þessum örfáu dögum sem eftir eru. Þetta mál kemur fram nægilega snemma og vel það þó að það sé fyrst tekið til umfjöllunar í dag, það er reyndar mál út af fyrir sig að ekki skuli hafa verið hægt að ræða það fyrr. Ég veit að það eru ýmsir sem taka eftir því að þetta mál kemur seint hér á dagskrá, hvað sem veldur því.