135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

541. mál
[18:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu mikið happ að svona lagað uppgötvist áður en málið er afgreitt frá þinginu og gert að lögum. En hér munaði hársbreidd, ekki satt? Því þetta mun vera 3. umr. þessa máls. Þetta minnir okkur á mikilvægi þess að menn flýti sér ekki um of og vandi yfirferð á frumvörpum. Það má kannski skjóta því hér inn í að því miður virðist mér af því sem ég sé eða frétti í nefndum að sá gamli góði siður að lesa frumvörp endanna á milli í heyranda hljóði í þingnefnd við upphaf umfjöllunar um þau sé eiginlega alveg aflagður. Mönnum kann að finnast það forneskjulegt en þetta var nú gert og gaf alveg ágæta raun. Því strax við slíka fyrstu yfirferð á málum þá kom iðulega í ljós að orðalag var eitthvað bjagað og jafnvel voru merkingarvillur í málum.

Má ég þá minna á að í þá tíð, herra forseti, fóru lagafrumvörp í gegnum þrennar umræður í tvennum deildum? Öll nema fjárlagafrumvarp. Og það var mjög algengt að bjarga þyrfti fyrir horn með breytingartillögu við lokaumfjöllun málsins vitleysum af því tagi sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson var hér að upplýsa, þær uppgötvuðust í seinni deild og málið var sent aftur til fyrri deildar til endanlegrar afgreiðslu.

Þegar Alþingi var gert að einni málstofu voru miklir svardagar uppi um að það yrði ekki til þess að umfjöllun þingsins grynnkaði eða hættur ykjust á einmitt gáleysismistökum af þessu tagi. Ég er því miður ekki viss um að menn standi nógu vel að því í öllum tilvikum nú þegar mál fá aðeins þrjár umferðir í einni deild og í einni þingnefnd, — því vel að merkja þá voru tvö sett af öllum þingnefndum þegar Alþingi starfaði í tveimur málstofum (Forseti hringir.) — að þetta sé nógu vandað. Ég tek orð hv. þingmanns gild um að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af frekari mistökum en ég kem þessum varnaðarorðum á framfæri.