135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

störf þingsins.

[10:35]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem hv. þingmaður vísaði til hefur farið til skoðunar hjá NATO og er eins konar bráðabirgðaniðurstaða um þetta efni en þær vísbendingar sem þar koma fram ber að sjálfsögðu að taka alvarlega og að sjálfsögðu hljótum við að vilja styðja við það að Genfarsáttmálinn sé virtur í hvívetna. Það vekur hins vegar athygli í þessari umræðu hver nálgun hv. þingmanns er á það viðfangsefni sem við er að glíma í Afganistan. Staðreyndin er sú að fyrir ekki mörgum árum, árið 2001 var 90% af landinu undir stjórn talibana og þegar hv. þingmaður víkur að því í máli sínu að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af ástandinu í Afganistan vegna þeirrar tortryggni sem þar ríkir, þar séu framin morð og pyndingar, hvernig var þetta þegar talibanar réðu í Afganistan? Þá var það einfaldlega þannig að þeir gerðu sér leik að því úti á leikvöngum að myrða fólk fyrir framan fjöldann. Það var þannig. Á þeim tíma þegar hersveitir NATO komu til Afganistans að beiðni Sameinuðu þjóðanna og með stuðningi frá stjórnvöldum voru börn ekki í skólum. Í dag ganga 6 milljónir barna í skóla í Afganistan, þar af 2 milljónir stúlkubarna. Hvernig er það með kvenfrelsisflokkinn Vinstri græna? Kann hann ekki að meta þann árangur sem náðst hefur í þessu tilliti? Hvað með stöðu kvenna í Afganistan þegar hún borin er saman við þá stöðu sem þær höfðu áður (ÁÞS: Nauðga og drepa.) en talibönum var hrint frá? (ÁI: Nauðga og drepa í stríði. Það er hlutskipti kvennanna.) Það verður að taka þessa umræðu af einhverri yfirvegun og jafnvægi og einblína ekki einungis á það sem miður fer. Auðvitað er það þannig alls staðar þar sem átök eiga sér stað að þar eru alvarlegir hlutir á ferð.