135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[15:35]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þingmaðurinn hafi farið eitthvað vitlaust fram úr í morgun þegar hann tekur málið upp með þessum hætti. Ég er ekki að gera lítið úr afstöðu eða framlagi annarra stjórnmálahreyfinga í þessu máli. Ég minntist sérstaklega á hlut hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, fyrrverandi borgarstjóra í Reykjavík, og vil alls ekki gera lítið úr því nema síður sé. Frumkvæði hennar að því máli var mjög mikilvægt. Við vorum þá í samstarfi í borgarstjórn Reykjavíkur í meiri hluta og vorum sammála um þau markmið sem hún gerði grein fyrir þar árið 2005. Að sjálfsögðu viljum við ná árangri í þessu máli.

En hv. þingmaður verður að gera sér grein fyrir því að menn ná auðvitað ekki árangri með því að gera ekki neitt nema bara að setja einhver orð á blað í kosningastefnuskrám um að stuðla að og síðan fylgir ekkert í kjölfarið. Það er það sem við erum að gagnrýna hér. Og þegar þingmaðurinn segir að margt sé í gangi þá spyrjum við eðlilega: Hvar sér þess stað? Þess sér ekki stað í þessu máli.

Varðandi samskiptin við sveitarfélögin þá þekki ég mætavel hvernig þau ganga fyrir sig og hvernig menn vilja að þau séu. En það sem ég nefndi hér og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon líka var hvort ekki hefði verið rétt að koma málinu í einhvers konar samstarfsfarveg á milli ríkis og sveitarfélaga. Það væri þó alla vega fyrsta skrefið að byrja að ræða það með þeim hætti.

Í þessu máli hafa mörg sveitarfélög tekið frumkvæði og innleitt að hluta til gjaldfrjálsan leikskóla þannig að það verður ekki hægt að segja um þau sveitarfélög, að minnsta kosti ekki Reykjavík fram að þessu, að þau séu andvíg því að leikskólinn verði gerður gjaldfrjáls. Ég held að flest sveitarfélög séu þeirrar skoðunar að það sé rétt skref en þau hafa eðlilega bent á (Forseti hringir.) að það þurfi að vera til tekjustofnar. Þau verða að hafa fjárhagslega burði (Forseti hringir.) til þess að gera það. Í því efni verður einfaldlega að tryggja aðkomu ríkisvaldsins.