135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[01:00]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil segja við virðulegan forseta og ágætan að ég hef aldrei kynnst svona vinnubrögðum. Forseti er að boða það að hann vilji setjast niður með þingflokksformönnum. Af hverju er þá ekki gengið í það verk? Af hverju þarf að halda þessu stríði áfram þegar engin von er til þess að menn vilji ná saman?

Nú er sem betur fer sá tónn kominn í hæstv. forseta að hann sér að það er skynsamlegt fyrir þingið að kalla þingflokksformenn saman og fara yfir málið. Þá eiga menn að ganga í það, ekki að halda stríðinu áfram. Nú eigum við einhverja von um að menn vilji við okkur tala og hætta þessu stríði.

Ég verð að segja fyrir mig að þessi stund hér minnir á gamalt stríð sem mér fannst alltaf ljótt, níðingsverk stórs þingmeirihluta á stjórnarandstöðu sem telur tiltölulega lítinn hóp þingmanna og að níðast á því sem er stærst og verst að hér á að tala um framhaldsskólafrumvarp. Við gerum það ekki hér fram á nótt. (Forseti hringir.) Ég skora á hæstv. forseta að fresta þessum fundi þegar og ræða við þingflokksformenn.