135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:16]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur farið yfir athugasemdir sem samtök framhaldsskóla hafa gert við frumvarp sem hér er til umræðu. Hv. þingmaður ítrekaði að hann vildi sjá menntun óháða efnahag og búsetu og ég tek undir það. Það er ábyggilega sameiginlegt markmið okkar að við getum boðið upp á öflugan framhaldsskóla eftir því hvar menn búa og óháð efnahag.

Það sem málið virðist snúast um og kom fram í umræðum sem hér hafa átt sér stað er hverjir eru hæfastir til að vinna áfram að þróun framhaldsskólans. Er það menntamálanefnd og sá hópur sem hefur verið að vinna að frumvarpinu eða kennarasamtökin og starfsfólk framhaldsskólanna sem hingað til hafa staðið að því að þróa skólana? Þegar framhaldsskólar voru stofnaðir upphaflega var fjölbrautaskólakerfið meira og minna þróað af skólamönnum sjálfum. Svar mitt við því er að ég tel starfsfólkið og kennarana hæfust til að vinna að þróun framhaldsskólans og þess vegna vil ég að ramminn verði víður og verkefnin verði færð út til skólanna sem allra fyrst.

Mig langar til að spyrja um þrjú atriði: Í fyrsta lagi um athugasemdir sem komu varðandi grenndarskóla og talað var sérstaklega um suðvesturhornið. Á hv. þingmaður við að hann vilji taka aftur upp hverfaskólafyrirkomulag á framhaldsskólastiginu í Reykjavík? Þetta er einföld spurning og gott að fá svar við henni.

Varðandi gjaldtökurnar langar mig líka að spyrja afar einfaldrar spurningar: Ef hann skoðar frumvarpið og ber það saman við núverandi framkvæmd, í hverju felast breytingarnar að mati hv. þingmanns? Er gjaldtaka aukin eða minnkuð? Ég held að það skipti miklu máli að hv. þingmaður geri grein fyrir því hvernig hann les þetta mál.

Í síðasta lagi, af því að menn hafa viljað binda ýmislegt mikið í lög, á ég von á því að hv. þingmaður stingi upp á því að við tökum upp samræmd stúdentspróf til að tryggja að við getum neglt þetta allt saman niður þannig að menn kvarti ekki yfir skilum á milli framhaldsskóla- og háskólastigs?