135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:12]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fagna þeim áfangasigri sem felst í því að þetta mál verður ekki að lögum í vor. Nú mun gefast tóm til að vinna það betur í sumar og við lítum svo á að 3. umr. muni verða meginumræðan um málið. Við munum því kalla tillögu okkar, sem fylgir málinu, aftur til 3. umr. og við munum ekki taka afstöðu til einstakra tillagna í frumvarpinu né málsins í heild við þessa atkvæðagreiðslu.

Ég vek athygli þingheims á því að þar er m.a. um að ræða 42. gr. frumvarpsins sem þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn á síðasta þingi og sú afstaða er óbreytt. Hún mun verða ítrekuð við lokaafgreiðslu málsins ef ekki tekst að fá greinina fellda út úr frumvarpinu. Við munum sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.