135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:45]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það líður sennilega nokkuð á þessa umræðu sem hefur fyrir margra hluta sakir verið athyglisverð, þótt ekki væri nema fyrir það að hér hafa sjálfsagt um eða yfir 30 manns sett sig á mælendaskrá eða talað og það þýðir sem sagt að um hálfur þingheimur hefur haft áhuga á því að vera með í þessari umræðu og það hefur dreifst nokkuð jafnt á stjórn og stjórnarandstöðu og þingflokka. Sem aftur endurspeglar að mínu mati þá tilfinningu margra og flestra væntanlega sem hér hafa talað að við séum stödd í býsna miklum erfiðleikum, Íslendingar, og að þannig tímar séu fram undan að enginn getur látið sér það í léttu rúmi liggja eða vera óviðkomandi.

Hæstv. utanríkisráðherra er ekki lengur hér en ég hafði einmitt hugsað mér að gera athugasemdir við það sem hún sagði og vék að okkur og okkar málflutningi, ekki bara almenns eðlis — ég læt mér það í léttu rúmi liggja þó að hæstv. utanríkisráðherra hafi um það einhver orð en að einu leyti vil ég mótmæla því sem hún sagði. Það var að í því sem við höfum sagt um þörfina á því að endurskoða lög um Seðlabankann sé fólgið sérstakt ábyrgðarleysi. Annaðhvort hefur hæstv. ráðherra ekki lesið það sem við höfum látið frá okkur fara í þeim efnum eða hún leggur það vísvitandi út á versta veg. Það undarlega er að þetta er einmitt sami hæstv. utanríkisráðherrann og fyrir um ári síðan eða tæplega það viðhafði sjálf þau ummæli að peningamálastefnan og tæki Seðlabankans væru ekki að virka og að menn yrðu að horfast í augu við það. Það vill svo til, herra forseti, að ég man þetta vel vegna þess að ég gagnrýndi þessi ummæli utanríkisráðherra og sagði: Nú, þetta hjálpar Seðlabankanum ekki beinlínis í viðleitni hans við að reyna að ná hér niður verðbólgu og halda aftur af þenslunni í landinu.

Nú kemur sami hæstv. utanríkisráðherra og segir að ekki komi til greina að hrófla við þessum hinum sömu hlutum hjá Seðlabankanum og kallar það ábyrgðarleysi — að leggja hvað til? Að leggja til að þetta verði endurskoðað, að fyrirkomulagið verði yfirfarið, við ræðum það hvort frágangur mála frá 2001 og reynslan af því síðan að keyra á þeim lögum og þeim markmiðum sem þar eru sett sé nógu góð. Eða er árangurinn þannig að það sé engin ástæða til að velta því fyrir sér? Er hæstv. utanríkisráðherra svona hæstánægð með það að í sex ár af þeim sjö sem Seðlabankinn hefur keyrt á þessum þröngu verðbólgumarkmiðum hafi þau ekki náðst og eru langt frá því í dag? Þau eru 10,5% ofan við efri mörkin, þ.e. 14,5% verðbólga þegar hún má mest verða 4%, bilið 1–4 og auðvitað 2,5% miðjan langt frá því að vera í sjónmáli. Það er ekki ábyrgðarleysi.

Hitt er hins vegar ábyrgðarleysi sem Samfylkingin hefur eitt fram að færa hér í þessari umræðu þegar hennar snautlegi málflutningur er samandreginn og það er að níða niður krónuna. Ég spái því að menn muni ekki eftir neinu sem Samfylkingin hefur sagt hér í dag þegar frá líður öðru en því að hún var hér með sinn venjulega málflutning um að níða niður gjaldmiðilinn, hann væri ónýtur, hann væri stórkostleg byrði á okkur og honum þyrfti að henda.

Ég hef aðallega áhyggjur af einu eftir þessa umræðu og það er sá kjaraskerðingartónn sem mér fannst, því miður, vera í máli hæstv. utanríkisráðherra og jafnvel tekið undir hann af fleiri stjórnarliðum eins og hv. þm. Árna Páli Árnasyni. Var það kannski það eina sem talsmenn úr báðum stjórnarflokkunum virtust vera sammála um hér í dag, það að ekkert væri fram undan nema bullandi kjaraskerðing hjá almenningi í landinu. Ég vara mjög við þessum málflutningi og segi við hæstv. forsætisráðherra: Það verður engin þjóðarsátt um það að láta óráðsíureikninginn í heild sinni og mistökin frá undanförnum árum í hagstjórn og efnahagsstjórn lenda núna allan í hausinn á heimilunum í landinu. Þau þola það ekki.

Hvað gerist hjá ungu skuldsettu fjölskyldunum í landinu sem núna hafa tekið á sig frá 30, 40 og upp í 80 þús. kr. aukna greiðslubyrði á venjulegum íbúðalánum einum á örfáum mánuðum ef til viðbótar verður veruleg skerðing á launaþættinum? Þá fyrst fáum við mikla og almenna erfiðleika svo að maður tali nú ekki um ef eitthvað af þessu fólki missir atvinnuna.

Ég hefði viljað heyra hæstv. forsætisráðherra tala á öðrum nótum um þessi mál og að síðustu hefði ég viljað heyra hvernig ríkisstjórnin ætlar á næstu dögum og vikum (Forseti hringir.) að standa að því samráði sem hún er alltaf að tala um og boða en gerir ekkert gagnvart, (Forseti hringir.) og verður stjórnarandstaðan höfð þar með í ráðum?