135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

virkjun Jökulsár á Fjöllum.

[13:37]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tek þögn hæstv. iðnaðarráðherra þannig varðandi þann þátt málsins að hann sé ekki lengur þeirrar skoðunar að þetta séu berir hugarórar úr mér. Menn væru ekki að setja peninga í rannsóknir ár eftir ár á virkjunarkostum sem kallaðir eru þessu nafni, Hófleg nýting vatns úr Jökulsá á Fjöllum, sem allir vita hvað þýðir — hugsunin er að taka a.m.k. Kverká ef ekki Kreppu líka eða vatn úr henni og það kostar uppistöðulón annaðhvort í Fagradal eða Arnardal og vatninu veitt austur á bóginn. Landsvirkjun hegðar sér í þessu tilviki eins og flestum öðrum eins og ríki í ríkinu sem þarf engan að spyrja eins né neins og gengur með störfum sínum þvert á það sem þó á að heita yfirlýst stefna Alþingis og ríkisstjórnar. Landsvirkjun neitar að slá af áform um Norðlingaölduveitu og uppistöðulón neðst í Þjórsárverum. Landsvirkjun veifar nú áformum um Bjallavirkjun þar sem á að fást tiltölulega lítið rafmagn upp úr risastóru lóni á miðhálendinu o.s.frv. Það er því ástæða til að vekja athygli á því hvernig þetta opinbera fyrirtæki hegðar sér. Það heyrir undir fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hefur yfir því að segja og ekki þarf nema eitt bréf til að segja mönnum að hætta að ögra með þeim hætti sem þarna er gert.