135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

frumvörp um skipulagsmál og mannvirki.

[13:51]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Síðastliðið vor lagði hæstv. umhverfisráðherra fram þrjú frumvörp. Frumvarp til laga um mannvirki, frumvarp til laga um brunavarnir og síðast en ekki síst frumvarp að nýjum skipulagslögum. Í skipulagsfrumvarpinu voru afar slæmar hugmyndir um svokallað landsskipulag. En þar er ríkinu í raun veitt fullt forræði að ákveða hvernig einstök sveitarfélög haga skipulagsmálum sínum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Landsskipulagsáætlun sem felur í sér stefnu um landnotkun er bindandi við gerð skipulags samkvæmt lögum þessum og skulu sveitarfélög endurskoða staðfest skipulag sitt í samræmi við áætlunina við næstu endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins en þó eigi síðar en innan fjögurra ára frá samþykkt hennar.“

Í stuttu máli sagt hafa þessar hugmyndir fallið í afar grýttan jarðveg hjá sveitarfélögum landsins sem og þeirra sem hafna algerlega þeirri forræðishyggju sem landsskipulagið felur í sér. Við framsóknarmenn höfnum því einnig en teljum að ríkið ætti að samhæfa áætlanir sínar og koma þeim á framfæri við sveitarfélögin á einum stað til að einfalda skipulagsvinnu sveitarfélaganna. Þetta er allt annað en kemur fram í frumvarpi til skipulagslaga.

Nú hefur það gerst að frumvörpin þrjú hafa verið send aftur upp í ráðuneyti til gagngerrar endurskoðunar og það þrátt fyrir að hafa fengið algjöra sérmeðferð í umhverfisnefnd. En nú er stóra spurningin: Ætlar umhverfisráðherra að falla frá hugmyndum um forræðishyggjuna í landsskipulaginu eins og þær lágu fyrir í frumvarpinu eða munum við sjá aðra og breytta tillögu um landsskipulag? Og einnig: Ætlar umhverfisráðherra að leggja fram að nýju frumvarp til laga um mannvirki og brunavarnir því að beðið er með óþreyju eftir betri og skýrari lagaframkvæmd á þessum sviðum sem og í skipulagsmálum?