135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:31]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Ég vil ítreka að ég hef flutt ræðu mína alla undir þeim orðum Valgerðar Sverrisdóttur sem eru lokaorð í áliti minni hluta heilbrigðisnefndar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að áfram verði lagt til grundvallar að heilbrigðisþjónusta getur aldrei orðið í formi hefðbundinna viðskipta þar sem hagnaðarvon ræður för.“

Varðandi þann þátt, sem kom fram í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra, að Samfylkingin væri ekki að gera annað en það sem Framsóknarflokkurinn hefði innleitt — ég saknaði þess nú að hæstv. ráðherra heyrði ekki frammíkall mitt þar sem ég spurði hann hvort við bærum þá líka ábyrgð á spænsku veikinni. Það er auðvitað hægt að rekja sögu Framsóknarflokksins mjög langt aftur.

Ég rakti það einmitt í ræðu minni hér áðan að ég tel að hluti af því sem verið er að gera núna sé úrelt á árinu 2008. Ég held að við stöndum í þeim sporum í sögunni að við munum endurmeta margt í hugmyndafræði markaðshyggjunnar sem hefur ráðið för ekki bara í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu heldur í allri þjóðfélagsumræðunni og þar á meðal í umræðunni hjá okkur framsóknarmönnum. Ég er ekki þeirrar skoðunar, og ég veit að það er ekki heldur skoðun hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, að allt sem Framsóknarflokkurinn stendur fyrir í 90 ára sögu sinni sé hafið yfir gagnrýni.

Ég held aftur á móti að munurinn á þeim verkum sem hæstv. iðnaðarráðherra ræddi hér í ræðu sinni, varðandi einstaka markaðsvæðingu og einstakar uppmælingar á einstökum verkum í heilbrigðiskerfinu, og því sem verið er að innleiða í dag sé töluverður. Með því sem verið er að innleiða í dag er ákveðin trúarjátning í þessum efnum. Og það er líka í þessu frumvarpi, og það hefur margoft komið fram hér í dag, ég get tekið undir með ýmsum þingmönnum sem hafa bent á það og þar á meðal Valgerði Sverrisdóttur. Í frumvarpinu eru tæki til þess (Forseti hringir.) að ganga mjög langt í algerri einka- og markaðsvæðingu á heilbrigðiskerfinu.