135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:03]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur kannski ekki skilist en ég var að veita andsvar við þeim ályktunum sem hv. þingmaður dró um afstöðu okkar vinstri grænna í ljósi þess sem dr. Allyson Pollock segir um skýrslu OECD. Ég var að vekja athygli á því að afstaða okkar lá fyrir löngu áður en sá fyrirlestur var haldinn. Það var nú allt og sumt.

En ágreiningsefnið í orðum Allyson Pollock varðandi skýrslu OECD lýtur að þeim aðskildu fullyrðingum sem eru í skýrslunni hvað varðar annars vegar hækkandi meðalaldur og hins vegar óhefta útgjaldaaukningu í heilbrigðisþjónustunni. Hún bendir á að hægt sé að grípa til ýmissa annarra aðgerða en einkavæðingar til að koma hömlum á kostnað í heilbrigðisþjónustunni.

Ég vil líka nefna að ekki er stoð fyrir því að síhækkandi aldur fólks ráði auknum útgjöldum í heilbrigðisþjónustunni. Það eru því miður mjög dýrir lífsstílssjúkdómar ásamt nýrri og dýrri tækni, m.a. við líffæraígræðslur og annað, sem hafa hleypt kostnaðinum í heilbrigðisþjónustunni upp miklu frekar en umönnun aldraðra. Það er það sem Allyson Pollock bendir líka á að ekki þurfi endilega að vera samræmi á milli útgjaldaaukningar og hækkaðs meðalaldurs. Dýrir lífsstílssjúkdómar, hjarta- og æðasjúkdómar, og möguleikar til að skipta um líffæri í fólki hleypa þessum kostnaði upp með nýjum og dýrum lyfjum sem aldraðir njóta ekkert sérstaklega.