135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[21:26]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hóf mál sitt á því m.a. að ásaka aðra hér í umræðunni um hroka en lauk svo máli sínu á því að ásaka talsmenn ólíkra sjónarmiða eða annarra flokka fyrir að vera athvarf íhaldssemi og tók svo að lokum fram að hann væri aldrei ómálefnalegur í ræðum sínum nema þegar hann vitnaði í aðra. (Gripið fram í.) Þetta sjálfsmat hv. þingmanns á hann að sjálfsögðu við sjálfan sig.

Hv. þingmaður notaði orðið nútímavæðing og taldi það vera einn af kostum þessa máls og gott ef hann vitnaði ekki einnig í einhverja ríkisstjórnarpappíra því til stuðnings að nú ætti að nútímavæða. Þá spyr ég hv. þingmann: Hvað þýðir nákvæmlega nútímavæðing? Þýðir hún það að íslenska heilbrigðiskerfið sé ekki nútímalegt í dag? Var það ekki nútímalegt þegar við tókum hjartaskurðlækningar inn í landið? Þurfti það að gerast í einkarekstri eða með útboðum? Nei, við gerðum það á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Hafa ekki bæklunaraðgerðir farið í gang á Akureyri, Norðfirði, Akranesi og víðar á síðustu árum? Var það ekki nútímalegt? Nota menn ekki nýjustu lyf og kaupa nýjustu tæki inn í opinberu íslensku heilbrigðisþjónustuna? Ég veit ekki betur. Hvað þýðir nákvæmlega nútímalegt hér? Er það kannski dulbúningur yfir þá markaðsvæðingar- og einkavæðingarhugsun sem hér er verið að læða inn bakdyramegin? Það skyldi nú ekki vera að þetta væri einmitt málblóm, skrautumbúðir utan um pólitísk markmið sem þarna eru á ferðinni? (GuðbH: Það á við fjárveitingarnar.)

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um fjárveitingarnar þá vil ég einmitt spyrja: Hefur vandamálið verið það að stjórnendur gerðu sér ekki grein fyrir auknu umfangi rekstrar og að þeir sæktu ekki um fjárveitingar í samræmi við það? Nei, það hefur ekki verið og er ekkert vandamál að leiðrétta slíkt í næstu fjárveitingum ef umfangið vex óvænt innan ársins. Vandinn er að það hefur ekki fengist og mönnum hefur verið haldið í fjárhagslegri spennitreyju ár eftir ár. Þetta vitum við vel, allir þingmenn. Landspítala – háskólasjúkrahúsi, (Forseti hringir.) sjúkrahúsinu á Akureyri og fleiri stofnunum hefur verið haldið í fjárhagslegri spennitreyju ár eftir ár að mínu mati í pólitísku skyni.