135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

örorkumats- og starfsendurhæfingarnefnd.

657. mál
[16:30]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að hér er um mikilvægt nefndarstarf að ræða. Sú nefnd sem hann getur um í fyrirspurn sinni er reyndar hin síðari af tveimur sem hafa unnið að þessum málum. Sú fyrri lauk störfum og skilaði sameiginlegu áliti og tillögum í mars 2007. Það álit var kynnt í ríkisstjórn og samþykkt að minni tillögu þar að fela fulltrúum þeirra ráðuneyta sem sæti áttu í nefndinni að fylgja tillögum hennar eftir og gera frekari útfærslu og tillögur um framkvæmd í samráði við Öryrkjabandalagið, Landssamtök lífeyrissjóða og aðila vinnumarkaðarins. Eins og hv. þingmaður gat um var meginefni þessara tillagna að breyta núgildandi örorkumati þannig að það verði sveigjanlegra og taki fremur mið af vinnugetu tiltekins einstaklings en örorku hans. Það er einnig gert ráð fyrir því að starfsendurhæfing verði stórfelld og skipulag hennar bætt þar sem m.a. verði lögð áhersla á að saman fari læknisfræðileg endurhæfing og starfsendurhæfing eftir því sem við á og hún hefjist eins fljótt og hægt er.

Síðari nefndin hefur unnið að þessu verkefni um allnokkra hríð undir forustu ráðuneytisstjórans í forsætisráðuneytinu. Hún hefur notið aðstoðar fjölmargra sérfræðinga á þessu sviði, innlendra sem erlendra sem og sérstakra ráðgjafa, enda er hér um viðamikið verkefni að ræða og mikið í húfi að vel takist til alveg eins og hv. þingmaður benti réttilega á. Ég treysti mér ekki til að tímasetja nákvæmlega hvenær þessu starfi lýkur. Auðvitað fer það eftir ýmsu og ekki bara vilja og áhuga einstakra nefndarmanna en stefnt er að því að fyrsti áfangi þessara breytinga geti komið til framkvæmda á næstu mánuðum.