135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

störf þingsins.

[10:44]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir undirtektirnar. Ég tek undir með hv. þingmanni, þetta mál er auðvitað fyrir dómstólum og það er ekki eðlilegt að nefnd hafi afskipti af slíku. En þetta gefna tilefni, eins og hv. þingmaður nefnir, kemur inn á eignarréttinn og þar með inn á eignarréttarákvæði stjórnarskrár og það sem vekur kannski mesta athygli í þessu er að þarna virðast hafa orðið á einhver mistök af hálfu löggjafans ef það reynist svo að þessi lög skapi þá niðurstöðu sem hér um ræðir.

Ég fagna því enn og aftur að hv. þingmaður telur það þess virði að allsherjarnefnd komi hugsanlega að því að velta því fyrir sér hvort það sé nauðsynlegt að endurskoða lögin. Ég ítreka það sem hér hefur komið fram að málið er ekki gengið alla leið. Hæstiréttur á eftir að fjalla um það þannig að líklega er eðlilegt að við fylgjumst áfram með málinu og skoðum síðan hvort ástæða sé til að bregðast við.

Ég vil taka það fram, vegna þess að ég man ekki hvort ég gerði það í fyrri ræðu minni, að fleiri hv. þingmenn í fleiri þingflokkum hafa svipaðar áhyggjur af málinu eða svipað sjónarhorn á málið og fram hefur komið í máli mínu. Ég ítreka enn og aftur að ég fagna viðbrögðum hv. þm. Birgis Ármannssonar.