135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[11:55]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir skýrsluna. Hún er afar gott yfirlit yfir það sem menn eru að sýsla uppi í umhverfisráðuneyti og margt gott fer þar fram.

Það sem mér finnst einna jákvæðast er að það er öruggt mál að umhverfisráðherra ætlar sér að halda á margan hátt áfram með það góða starf sem fyrrverandi umhverfisráðherrar Framsóknarflokksins hófu og því ber sérstaklega að fagna. Að öðru leyti tel ég skýrsluna frekar rýra. Ég hefði óskað eftir því að þar yrði svarað þeim mörgu stóru spurningum sem brenna á íslensku þjóðinni í augnablikinu.

Umhverfismálin eru að verða sífellt stærri þáttur í hinni pólitísku umræðu. Um það verður ekki deilt. Töluverð vakning hefur orðið í umhverfismálum og sífellt stærri og mikilvægari spurningar skjóta upp kollinum um hvernig við ætlum að sjá heiminn fyrir okkur í framtíðinni. Þetta hefur átt sér stað um allan heim. Mörg alvarlegustu og flóknustu umhverfisvandamál mannkynsins eru alþjóðlegs eðlis og verða ekki leyst nema með víðtæku og markvissu alþjóðlegu samstarfi. Sem betur fer tel ég að umræðan hafi verið málefnaleg og sanngjörn. Aðeins þannig tel ég að hægt sé að leysa úr þeim vandamálum sem blasa við. Við Íslendingar höfum staðið okkur sérstaklega vel ef við tökum dæmið á heimsvísu. Við höfum dregið úr notkun á ósoneyðandi efnum og losun þrávirkra lífrænna efna sem berast langar leiðir og geta meðal annars valdið usla í lífríki hafsins ekki síst á norðurslóðum sem ég tel afar mikilvægt. Við Íslendingar losum til að mynda mun minna af óendurnýjanlegum orkugjöfum en aðrar þjóðir ESB og meðan við nýtum um 70% af okkar orku með endurnýjanlegum orkugjöfum stefna ríki Evrópusambandsins að því að ná því upp í 20% árið 2020.

Hér hefur verið mikið rætt um hið svokallaða Kyoto-samkomulag og maður veltir fyrir sér hver stefna stjórnvalda sé í þeim efnum. Þráspurt hefur verið á Alþingi um hvað eigi að gera, hvað umhverfisráðherra ætli að fara með sér í næstu samningaviðræður en því miður gefur þessi skýrsla engin svör um það efni. Kyoto-samkomulagið fól í sér að allar þjóðir heims komu saman og ræddu hvernig væri hægt að koma í veg fyrir sífellt meiri mengun í heiminum og áhrif hennar á andrúmsloftið. Til þess að einfalda hlutina féllust iðnríkin og þróuðu löndin á að minnka umhverfismengandi efni en þau lönd sem ekki höfðu mengað eins mikið fengu undanþágu frá því. Ísland sótti um slíka undanþágu.

Við framsóknarmenn börðumst fyrir því að tekið yrði tillit til þess að nánast öll okkar orka sé endurnýjanleg enda kyndum við húsin okkar meira og minna með endurnýjanlegum orkugjöfum á meðan aðrar þjóðir hita húsin sín meira og minna með kolum og olíu. Á þetta var fallist sem betur fer og ég tel að hið íslenska undanþáguákvæði sé afar mikilvægt eins og hefur margsinnis sannað sig. Rökin fyrir því eru mikil því það er átta sinnum umhverfisvænna fyrir lofthjúpinn að við Íslendingar nýtum endurnýjanlega orku í iðnaði heldur en það sé gert annars staðar með kolum og olíu. Þá er kannski ekki síst vert að minnast á hina miklu fjárhagslegu hagsmuni sem eru í húfi fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu og losunarheimildir þessar verða gríðarlega mikilvægar þegar fram í sækir.

En hver er stefna stjórnvalda? Umhverfisráðherra sagði ekkert um það. Hv. þm. Illugi Gunnarsson sagðist vonast til þess að barist yrði fyrir sömu undanþágunni. En við sem erum í stjórnarandstöðunni krefjumst þess að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir komi sér saman. Ég held að það sé ekki eftir neinu að bíða í þessum efnum.

Því miður hefur umræðan um umhverfismál á Íslandi verið með allt öðrum hætti heldur en hún hefur þróast á heimsvísu. Hún hefur á margan hátt einkennst af upphrópunum, rakalausum fullyrðingum og stundum, því miður, bara hávaða og hræðsluáróðri. Því hefur verið fleygt fram í umræðunni að það sé verið að sökkva Íslandi, að álver eigi að koma í alla firði. Ekkert er fjarri sanni. Það mætti kannski segja að stundum hafi umræðan verið pínu fasísk og á köflum jaðrað við trúarofstæki. Þetta eru stór orð, hæstv. forseti. En því miður hefur þetta verið svona.

Vinstri grænir áttuðu sig fyrstir á því að umhverfisbylgjan væri á fullri ferð út um allan heim. Þetta er kannski undarlegt vegna þess að það má segja að vinstri menn, kommúnistar, hafa nú þótt frekar umhverfissóðar heldur en hitt. En þetta svínvirkaði. Fyrstir koma, fyrstir fá. Vinstri grænir komust á flug á síðasta kjörtímabili á meðan Samfylkingin (Gripið fram í.) tapaði stórt í stjórnarandstöðu.

Í raun má segja að þegar Samfylkingin snerist á umhverfissíðuna þá hafi þeir eyðilagt fyrir Vinstri grænum og í rauninni komið í veg fyrir að þeir hafi komist í ríkisstjórn. Þess vegna skilur maður vonbrigðin og biturðina sem því miður var einkennandi fyrir málflutning hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur því hið Fagra Ísland var því miður ekkert annað en popúlismi og til þess fallið að ná í nokkur atkvæði fyrir síðustu kosningar. Samfylkingin er nefnilega enginn sérstakur umhverfisverndarflokkur. Hann er bara hópur fólks héðan og þaðan sem þráði það svo heitt að komast í ríkisstjórn að hann var reiðubúinn að gera hvað sem er til að komast þangað.

Ég vil að við verndum landið okkar á sem mestan og bestan hátt. Ég vil og óska þess að umræðan verði öfgalaus á þann veg að við getum haldið uppi umhverfissjónarmiðum á meðan við nýtum auðlindir okkar til atvinnuuppbyggingar. Ég vil að við náum því markmiði að hér verði áfram byggð um allt land. Við eigum að nýta auðlindir okkar af skynsemi, fiskinn okkar, jarðvarmann og fallvötnin okkar. Ég vil alls ekki virkja hvar sem er og ég vil að það verði skoðað í hvert sinn hvort þetta geti ekki farið saman.

Mig langar til þess að nefna tvær stærstu birtingarmyndir hins svokallaða popúlisma í umhverfismálum. Hin fyrri er að hið svokallaða sameiginlega mat eigi að vera svo gott fyrir umhverfið. Það er bara ekkert sem segir til um það. Í rauninni komst Skipulagsstofnun að því í úrskurði sem hún felldi um framkvæmdir við álverið á Bakka að svo sé ekki. Það nefnilega veit enginn í raun hvernig hið sameiginlega mat virkar í framkvæmd. Það er á engan hátt hægt að fullyrða að betra sé að setja framkvæmdir í sameiginlegt mat heldur en að það fari fram ítarleg sjálfstæð möt sem hægt er svo að lesa saman ef vilji er fyrir því. Á þessu áttaði Vinstri hreyfingin – grænt framboð sig vegna þess að þeir fögnuðu í sjálfu sér ekki úrskurði ráðherra af því að þeir teldu hann góðan fyrir umhverfið. Þeir fögnuðu honum fyrst og fremst að þetta mundi stöðva eða hægja á álversframkvæmdum við Bakka á Húsavík.

Í öðru lagi hefur því verið fleygt fram hér í umræðunni, og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom örstutt inn á það áðan, að landsskipulag sé nokkuð sem hljóti að vera svo svakalega umhverfisvænt. Sú er ekki raunin. Landsskipulagið er bara skipulag eins og svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag og í því felst og kom fram í frumvarpi umhverfisráðherra að stjórnvöld áttu að geta trompað sveitarfélög þannig að sveitarfélög þyrftu að breyta sínu aðal- og deiliskipulagi í samræmi við ákvarðanir stjórnvalda. Þetta er að mínu mati taumlaus forræðishyggja og ég hafna því algjörlega að landsskipulag sé sett fram með þessum hætti.

Við framsóknarmenn ályktuðum um landsskipulag á okkar síðasta flokksþingi og þar segir, með leyfi forseta, að við viljum að mörkuð verði:

„Heildstæð sýn í skipulagsmálum, landskipulagsstefna, verði lögð til grundvallar við skipulagsgerð sveitarfélaga. Þar er um að ræða stefnumótun um landnotkun sem varðar þjóðarhagsmuni um grunngerð á landsvísu, sjálfbæra þróun, byggðaáætlun, samgönguáætlun, náttúruverndaráætlun, áætlun um nýtingu auðlinda, heilbrigðisáætlun og fleiri sem eiga að miða að sama marki.“

En við tökum það skýrt fram að sveitarstjórnir landsins ráði hvernig skipulagsmálum er háttað á þeirra umráðasvæði. Segjum sem svo að óður álverssinni væri umhverfisráðherra þá gæti hið svokallaða landsskipulag virkað þveröfugt en sem tæki til umhverfismála.

Þó ég telji Samfylkinguna hafa stolið umhverfisstefnu Vinstri grænna þá breyttist þetta einfaldlega þegar Samfylkingin komst í ríkisstjórn og nú hefur hún meira og minna tekið upp umhverfismál okkar framsóknarmanna. Og það er vel. Sú stefna er afar skynsöm. Við viljum ganga hóflega um landið okkar og viljum nýta það á sjálfbæran hátt.

Í skýrslunni er sagt (Gripið fram í.) að til standi að gera rammaáætlun um verndun og nýtingu hér á landi. Við framsóknarmenn lögðum sams konar rammaáætlun fram á vorþingi 2007 sem stjórnarandstaðan felldi því miður. Í henni er að finna tillögur að markaðri framtíðarstefnu um nýtingu og verndun auðlinda í jörðu og vatnsafls. Þar var lagt til að iðnaðarráðherra skipaði starfshóp sem hefði það hlutverk að móta áætlun um nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafls. Áætlunin átti að sýna á hvaða svæðum yrði heimilt að gefa út leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum í jörðu og vatnsafli samkvæmt lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Umhverfisráðherra átti að skipa sérstakan og sambærilegan starfshóp til að móta sérstaka verndaráætlun fyrir auðlindir í jörðu og vatnsafl. Áætlunin átti að sýna á hvaða svæðum yrði heimilt að gefa út leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum í jörðu og vatnsafli og síðan átti að gera ráð fyrir því að báðir starfshóparnir mundu skila tillögum sínum til forsætisráðherra og að hann mundi skipa sérstakan starfshóp sem muni hafa það hlutverk að samræma tillögur beggja hópanna í eitt lagafrumvarp um verndar- og nýtingaráætlun sem lagt hefði svo verið fram á haustþingi árið 2010.

Það eina sem er öðruvísi við þá áætlun sem Samfylkingin og stjórnarflokkarnir ætla að leggja fram er að henni verði flýtt um hálft ár. Hér kom hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og sagði einfaldlega að það gæti ekki staðist, þær tillögur sem við framsóknarmenn lögðum til væru miklu raunhæfari heldur en það að það ætti að leggja þetta fram hálfu ári fyrr en á haustþingi 2010.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er að renna út. Ég óska þess að umræða um umhverfismál verði mun málefnalegri og hófstilltari en (Forseti hringir.) hún hefur verið. Ég óska þess einnig að umhverfisráðherra sýni ábyrgð og (Forseti hringir.) sé reiðubúin að taka á stórum og mikilvægum málum sem snerta alla þjóðina.