136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[13:30]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Fjármálaráðherra hefur nú fyrir hönd ríkisstjórnarinnar lagt fram frumvarp að fjárlögum ársins 2009 og gert ítarlega grein fyrir forsendum þess í framsögu sinni. Ég hef í rauninni engu þar við að bæta en að sjálfsögðu mun ég í ljósi þeirra aðstæðna sem nú ríkja gera ráð fyrir því að lagt verði mat á allar þær stærðir að nýju áður en frumvarp að fjárlögum ársins 2009 verður endanlega afgreitt af hinu háa Alþingi.

Fjárlagafrumvarp næsta árs er nú lagt fram við allt aðrar aðstæður í efnahagslífi þjóðarinnar en verið hefur um langt árabil. Vextinum er lokið í bili og tekið hefur við tímabil samdráttar á mörgum sviðum. Þegar samdráttur vofir yfir og aldan er þung í efnahagslífinu má ríkið ekki magna þann samdrátt. Grunnhugmyndin í fjárlögum ársins 2009 er einmitt að ríkið stígi fram og leggi sitt af mörkum til að tryggja að grunngerð samfélagsins, atvinnulífsins og efnahagslífsins stöðvist ekki. Að sjálfsögðu tekur frumvarpið mið af þeim veruleika þótt fyllilega megi færa gild rök í umræðunni fyrir því að vart sé nóg að gert, spár séu ekki nægilega svartsýnar, samdráttur verði meiri en forsendur frumvarpsins geri ráð fyrir o.s.frv. Þetta kann að fela í sér nokkur sannleikskorn. Það eru hins vegar engin rök til þess að mæla svo eins og hefur heyrst í morgun að frumvarpinu megi kasta fyrir róða og hefja skuli alla vinnu að nýju vegna þess að hinar efnahagslegu stærðir í þjóðfélaginu og þar með forsendur frumvarpsins séu allar brostnar. Þeir sem tala fyrir slíkum tillögum tala af miklu ábyrgðarleysi.

Ég minnist þess einnig að sá söngur hafi alla tíð hljómað með álíka hætti úr munni stjórnarandstöðunnar á hverjum tíma um frumvarp ríkisstjórnar til fjárlaga. Alltaf er unnt að finna því eitthvað til foráttu.

Ég vil nota tækifærið m.a. til að gera að umtalsefni frumvarpssmíðina og aðkomu þingsins að vinnu við fjárlagafrumvarpið. Enn fremur hyggst ég í síðari hluta ræðu minnar fjalla um þær áherslur sem ég tel skipta meginmáli að menn gefi gaum við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Þrátt fyrir að miklar breytingar til batnaðar hafi verið gerðar á undanförnum árum má gera betur og við sjáum að í meðförum þingsins er venja að frumvarpið taki miklum breytingum sem að langstærstum hluta koma frá þeirri sömu ríkisstjórn og lagði tillögur sínar fyrir þingið. Því þarf að breyta. Regluverkið gerir ráð fyrir að ríkisstjórn samþykki útgjaldaramma sem viðkomandi fagráðuneytum er ætlað að vinna eftir, bæði faglega og fjárhagslega. Á þeim grunni er frumvarpið sett saman og lagt fyrir þingið. Þá hefur skapast sú venja að við tekur ferli þar sem breytingar verða milli allra þriggja umræðna um frumvarpið á hinu háa Alþingi.

Frumvarpið er vissulega flókin smíð og snertir eðli málsins samkvæmt alla þætti í starfsemi ríkisins. Það gefur því augaleið að á þeim stutta tíma sem gefst frá því að fjárlagafrumvarpið er kynnt og þar til það er tekið til umræðu í þingsal hefur þingmönnum gefist lítill tími til að kynna sér gaumgæfilega efni þess og áherslur sem það felur í sér. Æskilegt er að vinnuferlið við fjárlagagerðina verði með þeim hætti að framkvæmdarvaldið vinni tillögu sína að fjárlögum með svipuðum hætti og gert er í dag en breytingar eru þó gerðar á vinnu við gerð fjárlaga þegar þau eru lögð fyrir þingið. Líta verður miklu ákveðnar á en nú tíðkast að með fjárlagatillögu sinni sæki framkvæmdarvaldið heimild til Alþingis til að nýta skattfé almennings til þeirra verkefna sem ríkisstarfseminni er ætlað að annast. Almenningur á að sjálfsögðu þá kröfu á alþingismenn að þeir hafi góða þekkingu á því til hvaða verkefna fjármunum skattgreiðenda er ráðstafað og hafi góða sýn yfir þá flóknu starfsemi sem krefur af þeim fé. Þarna skortir á að mínu mati og leita verður leiða til þess að auka upplýsingu og þekkingu þingmanna á fjárlagahaldi hvers árs, forsendum þess og stefnumótandi áhrifum. Það verður best gert með því að auka skoðanaskipti þingsins og framkvæmdarvaldsins í þessum efnum og það má hugsa sér að gera annaðhvort í þingsalnum eða á vettvangi viðkomandi þingnefndar þar sem viðkomandi fagráðherra rökstyddi ósk sína til ráðuneytisins um fjárlagaheimildir hvers árs.

Ástæða þess að ég nefni ráðherra til sögunnar er einfaldlega sú að eins og nýleg dæmi sanna er það ekki á verksviði einstakra embættismanna að rökstyðja ákvarðanir sem eru á verksviði stjórnmálamanna. Breytingar í þá veru sem ég hef gert að umtalsefni mundu hafa í för með sér að þingið yrði betur upplýst um þær áherslur sem fjárlagafrumvarp hvers árs markaði. Þetta mundi gefa viðkomandi fagráðherra traustari stoðir til að standa á varðandi skyldu hans og ábyrgð um framkvæmd fjárlaga. Loks vil ég nefna að breytingar í þessa veru mundu undirstrika að fjárveitingavaldið er á höndum Alþingis. Um nauðsyn þess má eflaust lengi deila og hafa um mörg orð en ég læt einungis nægja að benda á eftirfarandi upplýsingar sem fram koma í frumvarpi því sem liggur fyrir Alþingi:

Í desember á síðasta ári samþykkti Alþingi að tekjuafgangur fjárlaga ársins 2008 ætti að vera tæpir 40 milljarðar kr. en áætlun fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir að hann verði um 3 milljarðar kr. Þá má gera ráð fyrir að þegar fjáraukalögin verða lögð fyrir Alþingi hafi um 37 milljörðum þegar verið ráðstafað án þess að þingið hafi fengið beiðni um þá ráðstöfun til umfjöllunar. Hér þarf meiri aga.

Sá stormur sem nú geisar í efnahagslífi landsins dregur bæði fram styrkleika okkar og veikleika sem þjóðar. Það má alltaf deila um hvort styrkur geti falist í því að vera smár en í þessu harðbýla landi norður í miðju Atlantshafi er ég þess fullviss að það eykur okkur styrk að geta starfað saman sem einn maður þegar á reynir. Við þurfum svo sannarlega á því að halda um þessar mundir og næstu missiri. Tækifæri okkar liggja í því að landið okkar býr yfir miklum auðlindum sem gefa okkur kost á góðum lífsskilyrðum en við umgöngumst þær og nýtum með skynsamlegum hætti. Sjávarútvegur, orka, landbúnaður, náttúrufar og saga landsins, hvert með sínum hætti, leggja ómetanleg verðmæti inn í framtíðarmöguleika okkar sem þjóðar. Við höfum borið gæfu til að afla okkur menntunar og þekkingar til að nýta þau verðmæti til uppbyggingar og að flestra dómi eru framtíðarhorfur þjóðarinnar góðar. Öll grunngerð íslensks samfélags er til fyrirmyndar. Það er hins vegar ljóst að nú um stundir árar þannig að verðmætasköpun þjóðarinnar hefur ekki verið í takt við þau lífskjör sem við höfum notið síðustu ár. Við höfum með öðrum orðum eytt um efni fram, byggt upp á ýmsum sviðum atvinnulífs, heimila og í ríkisrekstrinum með þeim hætti að nú dregur saman og við þurfum að endurmeta stöðu okkar.

Að því er snýr að ríkisfjármálum sérstaklega er algerlega ljóst að verðmætasköpunin í hagkerfinu nú um stundir stendur ekki undir þeim sama raunvexti sem verið hefur í ríkisrekstrinum undanfarin mörg ár. Fjárlög næsta árs gera ráð fyrir 4,2% raunvexti í almennum rekstri ríkisins og 7,1% raunvexti í tilfærslum. Það eru gríðarlega miklar hækkanir í rekstri og umfangi ríkisins. Þegar staðan í efnahagsmálum er jafnerfið og raun ber vitni er alveg ljóst að við þurfum að leita leiða til að ná fram lækkun þessara útgjalda. Ég tel það vera eitt af meginviðfangsefnum fjárlaganefndar að vinna í því á milli umræðna.

Af svörum hæstv. fjármálaráðherra við andsvari mínu við annars ágætri ræðu hans má ætla að færi verði til þess að gera breytingar til lækkunar á þessum viðfangsefnum. Eftir langt tímabil mikils afgangs í ríkissjóði er tímabundinn hallarekstur í efnahagslægð í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda að afkoma ríkissjóðs verði í jafnvægi til lengri tíma litið, þ.e. að ríkissjóður sé hallalaus yfir hagsveifluna. Við þær aðstæður þegar tekjuhalli myndast á ríkissjóði er mikilvægt að viðhalda aðhaldssamri stefnu sem leggur áherslu á hagkvæmni og varfærni í ríkisrekstrinum.

Eins og kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag hefur ríkissjóður sett sér margvísleg viðmið sem ganga undir nafninu fjármálareglur. Rammafjárlög til fjögurra ára, sem nú munu vera lögð fram í fyrsta sinn ásamt slíkum viðmiðunum sem kallaðar eru fjármálareglur, eru hvort tveggja mikilvæg verkefni til að tryggja að sá árangur sem stefnt er að í ríkisrekstrinum náist. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sett fram markmið um að ríkisútgjöld aukist ekki í hlutfalli við þjóðarframleiðslu frá því sem nú er. Einnig eru markmið um áframhaldandi trausta stöðu ríkissjóðs og markvissan ríkisrekstur sem m.a. feli í sér ráðdeild og varfærni í fjármálum.

Í fjárlagafrumvarpinu og fylgigögnum þess kemur m.a. fram að á þessum grunni hafi ríkisstjórnin samþykkt eftirfarandi viðmið varðandi þróun útgjalda ríkissjóðs:

1. Árlegur raunvöxtur rekstrargjalda án óreglulegra liða verði ekki umfram 2% að meðaltali árin 2009–2012.

2. Árlegur raunvöxtur tekjutilfærsluútgjalda verði að meðaltali ekki umfram 3,5% árin 2009–2012 og lækki á síðustu tveimur árum tímabilsins undir 2%.

3. Fjárfesting verði að meðaltali ekki umfram 2,5% af landsframleiðslu árin 2009–2012 en til framtíðar litið verði hún um 2% af árlegri landsframleiðslu.

4. Hlutfall ríkisútgjalda af þjóðarframleiðslu hækki ekki á tímabilinu.

Það er í mínum huga meginverkefni í vinnu fjárlaganefndar á þessu hausti að bera fjárlagafrumvarp ársins 2009 við þessa stefnu og leggja mat á getu ríkissjóðs og möguleika í því árferði sem nú ríkir — það á örugglega eftir að breytast þegar lengra líður á haustið — til að standast þessa annars skynsamlegu stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. forseti. Ég vil víkja nokkrum orðum að peningamálastefnunni og Seðlabankanum sem ganga um þessar mundir í gegnum mikla eldraun. Stýrivextir standa nú í 15,5% og verðbólgan er um 14%. Þessi staða er vitaskuld grafalvarleg svo ekki sé minnst á hvernig gengi íslensku krónunnar hefur fallið að undanförnu. Seðlabankinn hefur unnið eftir þeim markmiðum og reglum sem bankanum voru sett árið 2001. Þrátt fyrir að stýrivextir séu gríðarlega háir og bankinn beiti þeim úrræðum sem hann hefur yfir að ráða af öllum mætti er staðan engu að síður afar erfið. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að eftir að íslenska hagkerfið var opnað fyrir fjármagnsflutninga er íslenskt efnahagslíf orðið nátengt því sem gerist á alþjóðlegum mörkuðum. Æ oftar ber þá skoðun uppi í umræðu að setja eigi Seðlabankanum ný og raunhæfari markmið í ljósi þess hvernig til hefur tekist undanfarin ár og það tel ég afar brýnt. Það þarf að fara vandlega yfir framkvæmd peningamálastefnunnar og hvernig til hefur tekist líkt og forsætisráðherra boðaði á aðalfundi Seðlabankans sl. vor. Við þurfum að spyrja okkur nokkurra grundvallarspurninga í þessu sambandi svo sem hvort háir stýrivextir með tilheyrandi áhrifum á atvinnulíf og heimilin í landinu séu raunverulega það meðal sem muni vinna gegn vandanum sem við stöndum frammi fyrir. Ég dreg í efa að svo sé en treysti því að fengnir verði til þess hæfir og til þess bærir einstaklingar að fara yfir þessi atriði og vinna hratt — afar hratt og örugglega úr þeim niðurstöðum.

Virðulegi forseti. Fjárlaganefnd mun fara rækilega yfir fjárlagafrumvarpið í umfjöllun sinni milli umræðna. Eins og ég gat um áðan tel ég mjög brýnt að skoða mikla aukningu í rekstri ríkisins og leita leiða til að ná fram lækkun gjalda þar. Það er algert skilyrði að ríki og stofnanir þess fari með skattfé borgaranna og atvinnulífsins af varfærni og ráðdeild í svona ástandi. Það er eitt brýnasta verkefni okkar sem vinnum nú að gerð fjárlagafrumvarpsins að tryggja skynsamlega ráðstöfun almannafjár. Þetta er sérstaklega brýnt þegar ríkissjóður er rekinn með miklum halla enda má halli á fjárlögum ekki vera opinn tékki til stofnana ríkisins um að auka umsvif sín heldur hitt að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og tryggja að ríkið magni ekki þá erfiðleika sem nú ganga yfir í samfélaginu.