136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:57]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að minna á að í upphafi þingfundar í dag óskuðum við eftir því, ég fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hv. þm. Jón Magnússon fyrir hönd Frjálslynda flokksins, að þessari umræðu yrði skotið á frest þar til í næstu viku þegar fyrir lægju ákvarðanir ríkisstjórnarinnar hvað varðar ráðstafanir til að bregðast við þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir nú um stundir. Við því var ekki orðið og við vísuðum þá ábyrgð á hendur ríkisstjórninni fyrir þessi vinnubrögð. Gott og vel, við ræðum þetta frumvarp núna og umræðan er dæmd til að vera á mjög almennum nótum enda hverjum þingmanni ætlaðar tíu mínútur til hennar.

Talsvert er talað um að við eigum að tala í lausnum. Það deilir enginn um að Íslendingar standa frammi fyrir miklum efnahagsvanda og þrengingum á komandi mánuðum og missirum og að nú ríði á að við snúum bökum saman og tölum í lausnum. Því er ég sammála. Ég tel mjög mikilvægt að við slíðrum sverðin að því leyti sem unnt er, en þó verð ég að segja hitt að þegar menn bæta því við að nú eigi menn að láta það vera að benda á sökudólga og hvað valdi þeim vandræðum sem við stöndum frammi fyrir þá hef ég um það ákveðnar efasemdir. Það er nefnilega orðtæki til á íslensku sem segir: Vítin eru til að varast þau. Til þess að við getum varast vítin þurfum við að þekkja hver þau eru. Við verðum að horfast í augu við orsakirnar, hvað það er sem veldur því að við stöndum frammi fyrir þeim vanda sem raun ber vitni, taumlaus einkavæðing, einkavæðing fjármálafyrirtækja á tíunda áratugnum án þess að reistir væru varnarmúrar fyrir hönd almennings.

Þær fréttir berast úr fjármálaheiminum að bankarnir vinni að því að endurskipuleggja starfsemi sína, m.a. aðskilja almenna viðskiptastarfsemi og fjárfestingarsjóði. Ég geri mér ekki fyllilega grein fyrir hversu langt er gengið í þeim efnum en gengið er í þá átt sem tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa gengið út á. Fyrir þinginu liggur frumvarp frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni og mér um að þessi aðskilnaður verði gerður.

Hvers vegna er mikilvægt að ræða þetta í þessu samhengi? Jú, það er vegna þess að þegar hlustað er grannt á hvað fulltrúar ríkisstjórnarinnar sögðu í gær við stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra og þegar fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár er skoðað kemur í ljós að menn hafa ekkert lært. Fólkið sem nú segist vilja tala í lausnum neitar að horfast í augu við orsakir vandans.

Hæstv. félagsmálaráðherra ræddi það í ræðu sinni í gær að ríkisstjórnin væri í alvöru að hugsa um að þrengja að Íbúðalánasjóði, að fara að kröfu fjármálafyrirtækja og laga starfsemi hans að því sem gerist á almennum markaði þar sem vaxtaprósentan er þyngri og erfiðari. Ríkisstjórnin er í alvöru að tala um þetta enn þá. Þrátt fyrir það hrun sem þjóðin horfir upp á í fjármálaheiminum er ríkisstjórnin í alvöru að bjóða upp á lausnir af þessu tagi. Hún er í alvöru að ræða það að setja heilbrigðisþjónustu landsmanna í ríkari mæli en verið hefur út á markaðstorgið, menn eru í alvöru að ræða þetta. Í þessu frumvarpi er ekki tekið á fjárhagsvanda Landspítalans eða sjúkrahúsanna í landinu, það er ekki gert. Hvers vegna? Það á að kreista starfsemina og þröngva henni út á markaðstorgið. Það er það sem vakir fyrir stjórnvöldum.

Það er ekki tekið á vandamálum löggæslunnar. Við höfum verið að fletta blöðunum á undanförnum dögum og vikum og sjáum hvernig þrengt hefur verið að löggæslunni í landinu. Hún er verr mönnuð núna en hún var fyrir fáeinum árum. Það er verið að hafa kjörin af starfsmönnum löggæslunnar, skafa af þeim kjörin, skerða þau, vegna þess að löggæslan fær ekki þá fjármuni sem hún þarf á að halda. Hverjar eru afleiðingarnar, hvernig munu menn bregðast við í harðnandi samfélagi, hættulegu samfélagi? Hvernig bregst fámenn liðssveit lögreglu við á hættustundu? Hún fer að óska eftir því að fá að bera vopn, svo að dæmi sé tekið. Menn eru farnir að tala um mikilvægi þess að lögreglan vopnist. Væri ekki nær að hlúa betur að löggæslunni en gert hefur verið og halda í þau gildi sem hafa verið við lýði hjá lögreglunni til þessa, sem alla tíð hefur hafnað því að bera vopn og verja sig með þeim hætti? Ég nefni þetta bara sem dæmi.

Við munum skoða fjárlagafrumvarpið með tilliti til velferðarþjónustunnar almennt vegna þess að á samdráttar- og krepputímum ríður á að hún sé í góðu lagi. Velferðarþjónustan er mikilvægasta jöfnunartækið á sveiflu- og samdráttartímum. Við munum lesa þetta frumvarp með það í huga.

Síðan er það hitt, þegar við höldum okkur enn við orsakir vandans: Hvernig stendur á því að við höfum í höndunum fjárlagafrumvarp sem gerir ráð fyrir upp undir 60 milljarða halla? Það er vegna þess að á undanförnum árum hafa skatttekjur ríkisins verið skertar. Hátekjuskatturinn var felldur niður, eignaskattar, skattar á þá sem mest hafa efnin í þjóðfélaginu hafa verið skertir, það hefur verið dregið úr þeim. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vöruðum við þessu á sínum tíma. Við bentum á að tekjuafgangur á fjárlögum væri til kominn vegna þess að ríkissjóður nyti góðs af þenslunni, við töluðum um þensluskatta. Þegar þjóðin keypti um efni fram stóru bílana og keypt var til virkjana runnu auknar tekjur í ríkissjóð. Þetta var skammgóður vermir. Nú kemur á daginn að það vantar peninga. Hvað segja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þá? Ég er búinn að hlusta á þá við þessa umræðu. Þeir segja: Það þarf að draga saman í ríkisrekstrinum. Það þarf að minnka útgjöldin og fjárframlögin til Droplaugarstaða, til Landspítalans, til löggæslunnar. Þetta frumvarp gengur út á það.

Hæstv. forseti. Tími minn er þrotinn en við munum skoða frumvarpið með tilliti til velferðarþjónustunnar almennt og munum skoða þetta líka með tilliti til þess hvar hægt er að spara í ríkisrekstrinum. (Forseti hringir.) Hér hefur verið vísað á Varnarmálastofnun sem á að gleypa hálfan annan milljarð á sama tíma og skorið er niður við Droplaugarstaði og Landspítalann.